Landsliðsmaðurinn Axel Kárason er kominn til Íslands í stutt jólafrí. Axel leikur með Værlöse í dönsku úrvalsdeildinni þar sem liðið situr á botni deildarinnar. Leiðin af botninum er ekki löng þar sem nokkur lið fyrir ofan Værlöse hafa aðeins unnið einum leik meira en botnliðið. Karfan.is greip Axel glóðvolgan skömmu eftir lendingu á Íslandi og okkur lék m.a. forvitni á að vita hvort sæi nokkuð fyrir endan á einokun Bakken Bears og Svendborg Rabbits í dönsku úrvalsdeildinni.
 
„Í grunninn er það fjármagnið og þetta er búið að vera svona lengi eða einhver 10-15 ár sem t.d. Bakken hafa verið eitt langbesta lið dönsku deildarinnar. Þeir eru með sterka menn innanborðs og góða bakhjarla,“ svaraði Axel aðspurður um þessa tvo stærstu klúbba í dönskum körfuknattleik.
 
„Maður getur nánast sagt að það sé fasti fyrir hvert tímabil að Bakken taki titilinn. Á síðasta áratug held ég að þeir hafi unnið átta eða níu titla og síðustu ár hafa Bakken og Svendborg mæst í úrslitum deildarinnar. Bakken er oftar en ekki skörinni ofar en Svendborg en síðastliðið vor var úrslitasería þeirra með þeim betri seríum sem ég hef fylgst með og gat sigurinn fallið á hvorn veginn sem var.“
 
Hvað með önnur lið, er enginn sem getur blandað sér í þessa baráttu með Bakken og Svendborg?
 
„Það eru nokkur lið þarna eins og Næstved og Horsens sem leggja vel í starfið sitt til þess að velgja hinum tveimur undir uggum en Svendborg og Bakken eru gott dæmi um hversu erfitt það er að ætla sér að kaupa árangur. Grunnstoðir Bakken eru þær að félagið hefur góða og reynslumikla heimamenn, þeir eru ekki „ógeðslega“ heppnir með útlendinga á hverju ári, þetta er ekki þannig. Bakken heimila sínum dönsku leikmönnum að upplifa atvinnumannaumhverfi og hugsa afar vel um sína menn,“ sagði Axel og nefnir Næstved sem dæmi þar sem peningar hafa ekki dugað til að skáka Bakken og Svendborg.
 
„Næstved hafa sterka fjárhagslega bakkara og eru með fullmannað atvinnumannalið. Þeir hafa á að skipa 7-8 erlendum leikmönnum en gengur ekkert sérstaklega vel svo að kaupa sig á toppinn þarna er ekki að ganga upp. Síðast þegar Næstved voru á toppnum voru þeir einmitt með sterka og reynslumikla heimamenn.“
 
En hvað þá með Værlöse, er stærsti sigurinn bara að vera með?
 
„Á hinum endanum erum svo við í Værlöse. Við erum reyndar með flesta flokka í keppni í Danmörku í yngri flokka starfinu og heildar fjárhagur alls félagsins okkar er um það bil fimmfalt minni en t.d. hjá Bakken. Við erum engu að síður með, það er stolt í starfinu hjá Værlöse og mikill metnaður í að vera það félag sem gefur ungum leikmönnum tækifæri,“ sagði Axel og játti því alveg er við spurðum hann hvort Værlöse væri hið danska Ajax.
 
„Við erum í tiltölulega litlum bæ og það er ekki mikill peningur þarna í umferð en engu að síður mikið af vinnandi höndum sem eru tilbúnar að leggja ýmislegt á sig,“ sagði Axel sem kannast við þannig umhverfi frá Sauðárkróki. „Já já ég kannast við þetta, enda líður mér vel þarna, samvinnuandinn, KS-andinn,“ sagði landsliðsmaðurinn kíminn.
 
„Í Værlöse er maður ekki víðsfjarri atvinnumennsku en ég held að það sé meira viðeigandi að kalla starfið okkar hálf-atvinnumennsku,“ sagði Axel sem einnig stundar dýralækninganám í Danmörku og á hann þar tvö ár eftir af náminu. Hvað svo, beint heim að spila fyrir Tindastól?
 
„Það er svo langt þangað til en ég var samt búinn að lofa Bárði Eyþórs að spila til fertugs svo fremi hann væri enn með liðið. Ef hann endist svona lengi í starfi þá stend ég við minn hlut.“
 
Íslenskur körfuknattleikur hefur lítið séð til Axels síðustu tímabil og því hefur hann eflaust getað fylgst með úr fjarlægð og lá okkur forvitni á að vita hvernig hann sæi íslenska boltann úr fjarlægðinni.
 
„Það er alltaf talað um úti að boltinn á Íslandi sé mjög hraður, menn séu gjarnir á að skjóta þriggja stiga skotum og sumir úti sem ég hef rætt við hafa varla átt orð yfir stuttum sóknarleik liðanna hérna. Ég ætla ekki að gerast dómari um hvort sé betra en ég man eftir því hvað Geoff Kotila fyrrum þjálfari Snæfells ræddi á sínum tíma. Þó menn gætu verið á Íslandi og í Danmörku á svipuðum slóðum með sinn leik þá gæti danski boltinn mögulega hentað mönnum betur sem langar lengra með ferilinn sinn. Danski boltinn líkist kannski meira boltanum á meginlandi Evrópu heldur en þeim íslenska. Persónulega finnst mér skemmtilegra að spila boltann í Danmörku heldur en heima,“ sagði Axel og segir meira leitað inn í teiginn í Danmörku.
 
„Menn eru almennt hávaxnari í danska boltanum og leikurinn sennilega fjölbreyttari. Við Íslendingar erum frekar lágvaxin og það hefur mikil áhrif á þróun boltans. Í Danmörku er leikið hægar, meira sett upp og enginn fær „tilfelli“ ef leikur endar 67-64. Það verða ekki til neinar fyrirsagnir um lágt stigaskor fyrir vikið,“ sagði Axel sem fer aftur til Danmerkur snemma á nýja árinu.
 
Værlöse hefur leik aftur 7. janúar og þeirra bíður ærinn starfi að klóra sig upp úr botnsæti deildarinnar.