Það er engum blöðum um það að fletta að Miami Heat og Indiana Pacers er bestu liðin í austurdeildinni og einungis spurning um hvort þessara liða endar í úrslitunum í sumar. Þessi tvö lið öttu kappi í úrslitum austursins í fyrra og því hefur myndast rígur þarna á milli. Ekki síst fyrir þær sakir að í þessum liðum eru einhverjir allra bestu smærri framherjar (small forward) deildarinnar í LeBron James og Paul George. Þegar þessi tvö lið mætast eru þeir tveir í sviðsljósinu og í lok leiks er það oftast annar þeirra sem þarf að koma liði sínu til bjargar þegar á reynir, eins og í þessum leik.
 
Þegar 10 sekúndur voru eftir af þessum leik höfðu Pacers boltann og voru þremur stigum undir. George tekst að losa sig við LeBron með góðri gabbhreyfingu en LeBron virðist snerta George full mikið í lokaskotinu. George kvartar skiljanlega og heimtar þrjú víti en fær ekkert.
 
 
Hér koma þrír þættir til álita við mat á dómgæslunni: heimavöllur Miami, hagnaðarreglan og ofurstjarnan LeBron James.
 
1) Pacers eru á heimavelli ríkjandi meistara og meistarar munu ávalt njóta vafans á heimavelli.
2) Mesta snertingin er þegar George er að komast framhjá LeBron og virðist sá síðarnefndir toga í hann til að hægja á honum áður en hann fær boltann í hendurnar. Vissulega villa þar, en dómarar gætu hafa beitt hagnaðarreglunni og leyft George að komast í skotið. Hefðu þeir dæmt villu áður hefði George farið á línuna og fengið aðeins tvö skot. Pacers hefðu ekki mikið grætt á því.
3) LeBron James er besti körfuboltamaður í heimi, ríkjandi MVP, ríkjandi meistari og á heimavelli. Snertingin í skotinu er ekki mikil en dómarar í NBA hafa sýnt fordæmi sem gæti réttlætt villu þarna í skotinu.  Paul George er ótrúlega góður og rísandi stjarna en þarna á sjálfur kóngurinn í hlut og hann mun ávalt njóta vafans.
 
Það sem ég furða mig hins vegar á er hvers vegna í ósköpunum Miami brjóta ekki um leið að þeir komast yfir miðju, verandi þremur stigum yfir og bæði lið í bónus. Það hefði sent einhvern Pacers manna á línuna til að taka tvö skot. Þetta er það sem San Antonio Spurs brenndu sig á í úrslitunum í fyrra, gegn Miami Heat, og töpuðu mögulega titlinum á. Möguleg skýring er að Miami er slakt frákastalið og vill því ekki taka sénsin á að Pacers reyni að klikka á seinna skotinu, en möguleikarnir þar eru þó minni en við að gefa annað hvort frítt skot eða hætta á að fá dæmda á sig villu í þriggja stiga skoti.
 
Ég hlakka alla vega enn meira til að sjá þessi lið í úrslitakeppninni í vor.