Björn Steinar Brynjólfsson mun ekki leika meira með Íslandsmeisturum Grindavíkur þetta tímabilið en þetta staðfesti leikmaðurinn í samtali við Karfan.is í dag. Aðspurður hver ástæðan væri svaraði Björn:
 
 
„Er ég ekki bara eins og hver annar keppnismaður sem vill fá að spila og njóta mín á meðan maður getur. Eftir tvö frábær tímabil þá setti ég mér ákveðin markmið fyrir komandi tímabil og mér sýnist að það sé komið að leiðarenda hjá Grindavík. Ég er alls ekki hættur að spila. Ég hef spilað allan minn feril hjá Grindavík en eftir 10-11 ár þá vil ég sérstaklega þakka öllum sem koma að þessu starfi og stuðningsmönnum, sérstaklega leikmönnum,“ sagði Björn Steinar.
 
Annað lið er ekki komið inn í myndina hjá Birni en þess er eflaust skemst að bíða þar sem Björn segist ekki vera hættur.
 
Mynd/ nonni@karfan.is – Björn Steinar til varnar með Grindavík gegn Þór Þorlákshöfn.