Bjarki Þorsteinsson formaður Kkd. Skallagríms sagði í snörpu viðtali við Karfan.is að þetta hafi verið ánægjuleg lausn á því máli sem kom upp varðandi þjálfaramál þeirra Skallagrímsmanna, en líkt og flestir vita þá hafði Pálma Sævarssyni verið gert að stíga til hliðar í gær. „Ég ítreka að þetta var vissulega ekki ánægjuleg ákvörðun í upphafi. En við ákváðum að halda góðan fund þar sem menn töluðu bara hreint út og sögðu það sem þeir vildu og hvað mætti betur fara og þá uppsetningar á liðinu. Með þessari breytingu þá vinna þeir Páll og Pálmi þetta saman og Páll Axel kemur með sínar áherslur og Pálmi náttúrulega með sína reynslu. Þetta á vonandi eftir að bæta leik liðsins.“ sagði Bjarki.
 
 Líkast til var einhver pressa frá samfélaginu í Borgarnesi að endurskoða þessa uppsögn en Bjarki sagði það ekki hafa verið að trufla ákvörðun stjórnarinnar. „Það bar á góma í dag hvort við myndum taka þennan snúning og það var gert af opnum huga hjá öllum sem komu að þessu.  Þessi niðurstaða næst og það er virkilega ánægjulegt fyrir okkur.  Það sem skiptir mestu máli er að liðið komist á siglingu og nái þeim markmiðum og getu sem við teljum að það hafi og við teljum okkur eiga að vera eitt af 8 efstu liðum deildarinnar.“ sagði Bjarki að lokum.