Pálmi Þór Sævarsson varð í kvöld fyrsti þjálfarinn í úrvalsdeild karla þetta tímabilið til þess að fá reisupassann. Borgnesingar eru í 10. sæti deildarinnar um þessar mundir og sagði Bjarki Þorsteinsson formaður Körfuknattleiksdeildar Skallagríms að ekki væri við Pálma einan að sakast en að sú skoðun hafi verið innan stjórn deildarinnar að bregðast þyrfti við stöðunni.
 
 
„Okkur fannst við þurfa að bregðast við á einhvern hátt en það er ekki við Pálma einan að sakast en við höfum ekki marga valkosti til að gera breytingar. Þetta er óneitanlega engin óskastaða að láta rótgróinn Skallagrímsmann fara,“ sagði Bjarki en athygli vekur að Pálmi mun þó áfram starfa fyrir félagið, t.d. við þjálfun yngri flokka.
 
„Það lýsir bara manninum sem Pálmi hefur að geyma, hann mun sinna yngri flokkunum áfram og gera það með sóma nú sem endranær,“ sagði Bjarki en þeir Finnur Jónsson og Páll Axel Vilbergsson munu taka við Borgnesingum og stýra þeim inn í jólafríið hið minnsta. En eru Borgnesingar þá á höttunum eftir nýjum aðalþjálfara eða munu Finnur og Páll Axel jafnvel klára leiktíðina?
 
„Það er opið hvort þeir klári eða við ráðum annan þjálfara, þetta hefur ekki verið rætt að fullu en við erum að horfa á næstu tvo leiki og svo setjumst við yfir málin og skoðum framhaldið. Finnur og Páll voru reiðbúnir til þess að taka við stýrinu og stjórnuðu í kvöld sinni fyrstu æfingu saman. Við vonum auðvitað að menn snúi nú bökum saman og klári þetta með stæl.
  
Mynd/ Páll Axel tekur við þjálfun Skallagríms ásamt Finni Jónssyni