Þórsarar unnu verðskuldað í Grindavíkinni í kvöld þegar liðin mættust í Röstinni í Dominosdeildinni. 78:88 var lokastaða kvöldsins og gestirnir sem fyrr segir vel að sigrinum komnir eftir að hafa gefið sig alla í leikinn.  Jafnræði var með liðunum framan af og bæði lið höfðu skorað 41 stig í hálfleik. 
 
Þórsarar mættu gríðarlega einbeittir til leiks þetta kvöldið til Grindavíkur og ætluðu sér lítið annað en sigur.  Þeir leiddu megnið af leiknum og undir lok leiks þegar Grindvíkingar gerðu sig líklega til afreka með leiftursóknum þá var það kæft niður jafn harðan af gestunum.  Vörn þeirra í síðasta fjórðung var mögnuð og sóknarleikur Grindvíkinga virtist hugmyndasnauður með öllu og þrátt fyrir að heimamenn hafi langað að gera betur þá höfðu Grindvíkingar ekki það sem þurfti þetta kvöldið. 
 
Ragnar Nathanaelsson var að öðrum ólöstuðum maður þessa leiks með 19 stig og heil 25 fráköst. Kappinn réðst á öll möguleg sóknarfráköst sem hann gat mögulega teygt sig í og uppskar 12 slík þetta kvöldið.  Hjá Grindvíkingum var Ólafur að sýna baráttu en aðrir virtust bara ekki í gír til að spila körfuknattleik þetta kvöldið.  Umfjöllunin verður stutt að þessu sinni en við látum viðtöl eftir leik rúlla hér að neðan þar sem Sverrir Þór, Ólafur og Benedikt láta gamminn geisa. 

Tölfræði leiksins