Stjarnan tók í kvöld á móti Val í Dominos deild karla. Stjörnumenn höfðu fyrir leik kvöldsins verið að finna taktinn eftir erfiða byrjun, en Valsarar höfðu aðeins innbyrt einn sigur í deildinni.
 
 
Heimamenn tóku fljótlega forystuna og voru að sýna nokkuð lipra takta. Valsmenn treystu mikið á baráttu og voru Chris Woods og Birgir Pétursson duglegir að hamast í frákösturum heimamanna. Þrátt fyrir góða baráttu gestanna úr Hlíðunum höfðu heimamenn 13 stiga forystu í hálfleik, 41-28.
 
Heimamenn byrjuðu seinni hálfleik af krafti og náðu á tímabili 22 stiga forskoti. Þá tók hins vegar við afskaplega sterkur kafli hjá gestunum, en þeir Benedikt Blöndal og Chris Woods drógu vagninn í hörku áhlaupi. Áður en Stjörnumenn vissu af var Benedikt búinn að minnka muninn í 6 stig þegar aðeins um 3 mínútur voru eftir, og allt gat gerst. Þá tóku hins vegar Justin Shouse og Dagur Kár Jónsson til sinna ráða. Þeir smelltu tveimur þristum í röð í andlitið á Valsmönnum sem komust eftir það ekki nálægt Stjörnunni. Lokastaðan 90-80 í leik sem virtist vera búinn í 3. leikhluta, en Valsmönnum má hrósa fyrir að hafa ekki gefist upp.
 
Justin Shouse var stigahæstur Stjörnumanna með 20 stig, og þá daðraði Junior Hairston heldur betur við þrennuna, en hann lauk leik með 17 stig, 22 fráköst og 9 stoðsendingarm auk þess að verja fimm skot. Hjá Val skoraði Chris Woods 25 stig og tók 18 fráköst, og Benedikt Blöndal skoraði 24.