Landsliðsmaðurinn Axel Kárason og félagar í danska liðinu Værlöse BBK sitja nú á botni dönsku úrvalsdeildarinnar þegar liðið hefur lokið við 11 leiki í deildarkeppninni. Fjarlægðin í næstu lið fyrir ofan er ekki ýkja mikil og segir Axel upprisu liðsins hafna.
 
 
„Jú ég er bara að verða helvíti góður,“ svaraði Axel aðspurður hvort hann hefði leikið með lungnabólgu á dögunum. Ég spilaði á laugardaginn og ef við miðum við að ég var svona á milli 10-20% í tveim leikjum þar á undan, þá er ég kominn upp í svona 80-90% og ætti léttilega að vera orðinn 100% þegar við spilum um næstu helgi,“ sagði Axel sem var nú lítið að hafa fyrir því að angra lækna um það hvort hann væri leikfær.
 
Gengið í vetur hefði mátt vera betra til þessa, liðið aðeins unnið tvo af 11 leikjum sínum í deild og situr á botninum.
 
„Já þetta hefur svona ekki alveg gengið að óskum hjá okkur hingað til, 2-3 leiðindatöp gegn liðum sem eru þarna með okkur í neðri hutanum. En blessunarlega fyrir okkur erum við þó ekki nema 1-2 sigrum á eftir liðunum sem eru í næstu 5 sætum fyrir ofan okkur. Svo virðist nýji kaninn (búinn að spila 2 leiki) vera kominn vel inn í málin, og um þessar mundir erum við að gera róttækar breytingar á leikskipulaginu sem lofa góðu. Eins og hjá Kristi forðum, þá er upprisan hafin.“
 
Mynd/ Liðsmynd Værlöse BBK