Appelsínugulir Njarðvíkingar fóru með tvö örugg stig af hólmi eftir leik sinn gegn ÍR-ingum í kvöld en liðin mættust í Ljónagryfjunni að Norðurstíg í Njarðvík.
 
 
ÍR fór vel af stað með reynsluboltann Sveinbjörn Claessen í fararbroddi, en hann setti þrjá þrista á fyrstu þrem mínútum leiksins. Njarðvíkingar voru seinir í gang en fylgdu þétt á hæla ÍR-inga og aðeins munaði einu stigi á liðunum eftir fyrsta fjórðung, 22-23.
 
Sveinbjörn Claessen fékk sína þriðju villu í upphafi annars leikhluta og þá fór aðeins að hægjast á kallinum því hann skoraði ekki stig eftir það, öll 10 stigin skoraði hann í 1. leikhluta. Aftur á móti sneru Njarðvíkingar leiknum sér í hag í öðrum leikhluta og enduðu á 14-5 áhlaupi sem gaf þeim 56-44 forystu í hálfleik. Elvar Friðriksson átti stóran þátt í framúrtökunni, en hann var með 20 punkta í hálfleik.
 
Í upphafi þriðja leikhluta splæstu appelsínugulir í annað 14-5 áhlaup og lokuðu þá eiginlega leiknum, Logi Gunnarsson var frábær í þriðju lotu þar sem hann skoraði 11 stig en í heildina var hann með 24.
 
ÍR-ingar skoruðu einungis 14 stig í þriðja leikhlutanum og aðeins 12 í þeim fjórða. Njarðvíkingar spiluðu mjög ákveðna vörn í seinni hálfleiknum og gestirnir áttu í raun ekki séns frá því fyrstu þrjátíu sekúndurnar eða svo í þriðja fjórðungnum.
 
Egill Jónasson kórónaði sigur Njarðvíkinga þegar hann setti svakalegan þrist og það þýddi að allir 12 leikmenn liðsins höfðu skorað en þessi 218 cm risi er með RANGE!
 
Elvar Már var atkvæðamestur heimamanna með 25 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar og Logi Gunnarsson var með 24 stig, þar af 10 af 11 tveggja stiga skot en það gerir 91%. Matthías Orri Sigurðsson var bestur hjá ÍR með 18 stig, 7 stoðsendingar og 4 fráköst og Björgvin Hafþór Ríkharðsson bætti við 15 stigum og 6 fráköstum.
 
 
Umfjöllun: AE