Ægir Þór Steinarsson hefur verið fjarverandi í liði Sundsvall Dragons undanfarið sökum meiðsla en Drekarnir endurheimtu Jakob Örn Sigurðarson í liðið á nýjan leik í gærkvöldi sem einnig hafði verið frá sökum meiðsla.
 
 
Ægir Þór er að glíma við álagsbrot í fæti en þetta er í annað sinn sem það kemur fyrir hjá kappanum. „Þetta er á sama beini og síðast nema bara á öðrum stað en fyrri meiðslin komu upprunalega á Smáþjóðaleikunum,“ sagði Ægir í samtali við Karfan.is.
 
Ægir kvaðst verða klár í slaginn eftir um það bil þrjár vikur en Drekarnir mega ekki lengi án hans vera enda baráttan hörð í sænsku deildinni og skylda að tefla fram að minnsta kosti 10 leikmönnum í hverjum einasta leik. Í gær bárust svo fregnir af því að Sundsvall myndi að öllum líkindum styrkja hópinn með sænskum leikmönnum sökum meiðsla lykilmanna en þegar hefur Alex Wesby yfirgefið klúbbinn og kemur ekki aftur.