Stærsti leikur vetrarins fram að þessu var leikinn í kvöld í TM höllinni í Keflavík og lauk með öruggum sigri gestanna í KR. Svæðisvörnin sem hefur virkað svo vel fyrir Keflvíkinga í vetur, var brotin á bak aftur í seinni hálfleik með hraðri boltahreyfingu og stanslausum árásum á korfuna með Martin Hermannsson í broddi fylkingar.
 
Leikurinn var í járnum nánast allan fyrri hálfleik en þó með Keflavík í bílstjórasætinu. Vörnin var gegnheil og KRingar fengu lítið svigrúm til athafna. Gestirnir hins vegar héldu haus allan tímann þrátt fyrir þetta og leituðu meira inn í teiginn í stað þess að þröngva upp skotum fyrir utan sem voru ekki að detta. KR skaut aðeins 7 skotum fyrir utan þriggja stiga línunna í fyrri hálfleik og aðeins eitt þeirra fór ofan í.
 
Í þriðja leikhluta var allt annað uppi á teningnum hjá KRingum. Boltinn gekk hratt manna á milli og ráðist var á allar glufur sem svæðisvörnin gaf. Martin Hermannsson – sem virðist geta gert hvað sem honum sýnist inni á körfuboltavellinum, sama á móti hverjum – leiddi árásirnar með góðum árangri. 11 stig frá kauða í þriðja hluta og 78,6% eFG.
 
Varnarleikur KR var stórkostlegur í seinni hálfleik og fengu Keflvíkingar varla rými til að anda í sóknarleik sínum.
 
Leikmenn Keflavíkur voru fullfljótir að hengja haus þegar allt of mikið var eftir af leiknum. Andy Johnston virtist ráðþrota í seinni hálfleik og skipti yfir í maður-á-mann vörn þegar langt var liðið á fjórða hluta. Michael Craion og Gummi Jóns voru þeir einu sem virtust vera með púls í seinni hálfleik. Craion átti frábæran leik að venju með 22 stig og 14 fráköst, þar af 9 sóknarfráköst. Sjö tvennur frá honum í vetur eða í öllum leikjum vetrarins. Hann átti mjög skilvirkan leik fyrir Keflavík með 1,59 stig skoruð per sókn og 82,2% sóknarnýtingu. Gummi var að hitta mjög vel fyrir utan og var 6/10 í þristum með 64,7% eFG nýtingu í leiknum.
 
Bæði lið skutu rúmlega 20 skotum fyrir utan þriggja stiga línuna en Keflvíkingar skjóta um 30 skotum fyrir utan að meðaltali í leik og KR rúmlega 24. Ágæt vísbending um þann varnarleik sem var í gangi í TM höllinni í gær. Færin voru bara ekki í boði líkt og áður.
 
Þó KR liðið sé yfirfullt af hæfileikaríkum einstaklingum verður að benda á þá staðreynd að Finnur Stefánsson hefur undirbúið sína menn alveg gríðarlega vel fyrir þennan leik. KR nýttu sér þá fáu veikleika sem Keflvíkingar bjóða upp á með góðum árangri. 
 
Hvað skilvirkni varðar var hún mun meiri hjá KR eða 49% sóknarnýting og 54,7% eFG. Sóknarnýting Keflvíkinga var lakari eða 42,5% en hún féll umtalsvert í seinni hálfleik úr 48% í þeim fyrri. Skotnýting Keflavíkur var 45,8% eFG.