Örvar Kristjánsson, þjálfari ÍR-inga á fyrsta ári í Breiðholtinu, fór mikinn í viðtali við Karfan.is og þrumaði á leikmenn sína fyrir slakan varnarleik. Áhyggjur Örvars af varnaleik ÍR er hins vegar ekki ástæðulausar því ÍR-ingar eru að spila sinn allra versta varnarleik í fyrstu sex leikjum tímabilsins. 
 
ÍR rétt slapp við fall niður í 1. deild vegna hagstæðra úrslita á síðustu leiktíð. Ef fer sem horfir mun ÍR verða á sama stað, ef ekki neðar þegar öllu verður á botninn hvolft í vor. 
 
Varnarleikur ÍR-inga hefur verið slakur undanfarin ár. Liðið er oftar en ekki í neðri hluta deildarinnar í tölfræðiþáttum sem snúa að varnarleik. Nú eftir sex umferðir er liðið hins vegar algerlega á botninum í öllum af þessum þáttum. ÍR-ingar leyfa andstæðingum sínum 10,7 þriggja stiga körfur í leik, langflest allra liða. Nýting andstæðinga í þriggja stiga skotum er líka framúrskarandi eða 40,3%. Framlagsstuðull andstæðinga er 115,2 í leik á meðan meðaltal deildarinnar er 96,5. Stig per sókn hjá andstæðingum ÍR-inga er líka langflest eða 1,188 þar sem meðaltal deildarinnar er 1,009.
 
Tölfræðisamantekt af varnarþáttum liðsins er að sjá hér að neðan. DRgt þýðir stig skoruð af andstæðingi í 100 sóknum, ScPoss stendur fyrir “Scoring Possessions” eða sóknir þar sem a.m.k. eitt stig er skorað, PPP er stig skoruð per sókn og Floor% stendur fyrir nýtingu sókna eða fjölda ScPoss á móti öllum sóknum liðsins.
 
 
ÍR-ingar afhentu nú í kvöld KFÍ þeirra fyrsta sigur á eigin heimavelli og standa nú í 9. sæti með tvo sigra og fimm töp. Eitthvað þarf að gerast til að þetta gamla stórveldi í íslenskum körfubolta falli ekki niður um deild í annað sinn á 15 ára tímabili. Sóknarleikur liðsins er ekki alslæmur en varnarleikurinn er hörmung og hann verður liðinu að falli – bókstaflega – ef ekkert verður að gert.