Þór vann sætan 73 – 71 sigur á Skagamönnum í gærkvöld þegar liðin mættust í 4. umferð 1. deild karla í körfuknattleik sem fram fór í íþróttahúsi Síðuskóla.
 
 
Þórsarar byrjuðu leikinn af miklum krafti og skoruðu fyrstu fimm stig leiksins. Elías Kristjánsson virtist koma vel stemmdur til leiks og skoraði sjö af fyrstu níu stigum Þórs. Það var aftur á móti vörn heimamanna sem náði sér á strik sem skilaði heimamönnum oftar en ekki auðveldum stigum. Aftur á móti áttu gestirnir frá Skaganum í erfiðleikum, þá sérstaklega Zachary Warren sem var í strangri gæslu heimamanna. Smá saman skildu leiðir og Þórsarar náðu að byggja upp ágætis forskot og leiddu að loknum fyrsta leikhluta, 26 – 13.
 
Annar leikhluti var þó töluvert rólegri. Varnarleikur liðanna var ekkert sérstakur en sóknarleikurinn var jafnframt frekar slappur. Þórsarar náðu þó að halda sæmilegu forskoti lengi vel. Um miðjan fjórðunginn var Zachary fyrir smá hnjaski og þurfti að yfirgefa völlinn í smá stund. Fór einn fingur hans úr lið, en honum var kippt í liðin hið snaransta og kæling í smá stund og kappinn var klár á nýjan leik eftir þriggja mínútna hvíld. Í millitíðinni náðu Skagamenn þó ágætis takti í sókninni sem hélt áfram þegar Zachary stimplaði sig aftur inn í leikinn. Smá saman minnkuðu gestirnir muninn og þegar flautað var til hálfleiks var forskotið komið niður í átta stig, 40 – 32.
 
Skagamenn byrjuðu síðari hálfleik af miklum krafti á meðan hugur Þórsara var enn í búningsklefanum. Sóknarleikur heimamanna var afar tilviljunarkenndur sem einkenndist mjög af einstaklingframtaki. Til að bæta gráu ofan á svart, voru Þórsarar ekkert heldur að flytja sér mikið í að snúa til baka í vörn. Skagamenn þökkuðu pent fyrir sig og nýttu kæruleysi heimamanna til hins ýtrasta. Skagamenn hófu því síðari hálfleikinn með 14 – 4 spretti og voru skyndilega komnir yfir, 44 – 46. Skagamenn voru örlítið á undan heimamönnum sem þó náðu að halda í við Skagamenn og þegar fjórði og síðasti fjórðungurinn hófst var jafnt á með liðum, 53 – 53.
 
Eftir hörku ræðu frá Bjarka þjálfara liðsins náðu Þórsarar að rífa sig upp í lokafjórðungnum og náðu aftur undirtökunum í leiknum. Fremstur í flokki fór Jarrell Crayton sem skoraði 8 af 17 stigum sínum í fjórða leikhluta. Þórsarar voru duglegir að finna Jarrel inn í teig sem skilaði sínu vel. Skagamenn gáfust þó ekki upp og var Zachary Warren allt í öllu í liði gestanna og með baráttu náðu Skagamenn að gera leikinn aftur spennandi.
 
Flestir í síðuskóla héldu að Sveinn Blöndal hafi endanlega tryggt Þórsurum sigur með að setja tvö vítaskot niður þegar nokkrar sekúndur voru eftir. Skagamenn tóku þó leikhlé og í næstu sókn setti Birkir Guðjónsson niður þrist þegar um tvær sekúndur voru eftir, 72 – 71. Í staðinn fyrir að ná að brjóta strax á heimamönnum, var Jarrell Crayton fljótur að hugsa og náði að kasta knettinum langt fram á völlin á Sindra Davíðsson, sem einungis hefði átt auðvelt lay-up eftir en Zachary átti engan annann kost í stöðunni en að brjóta á Sindra og fékk fyrir vikið óþróttamannlega villu. Sindri setti annað vítið niður og Skagamenn höfðu ekki nægan tíma til að gera neitt og því fögnuðu Þórsarar sætum sigri, 73 – 71.
 
Ekki er hægt að segja að það hafi verið neinn glæsibragur á sigrinum í kvöld. Þórsarar gerðu í reynd nóg til að vinna leikinn en margt má þó bæta í leik liðsins. Það sem stakk líklega mest í augun í kvöld var vítanýting Þórs. Það að ná varla 50% vítanýtingu er einfaldlega óásættanlegt og sterkari andstæðingur hefði refsað grimmilega fyrir slíka nýtingu. Sigur Þórs í kvöld þýðir að liðið deilir nú efsta sætinu með nágrönnum sínum í Tindastóli.
 
Stigahæstur í liði Þórs var Jarrel Crayton með 17 stig og 15 fráköst en næstir honum komu Ólafur Aron og Sveinn Blöndal með 15 stig hvor. Í liði gestanna var Zachary Warren allt í öllu en hann setti niður 31 stig og Ómar Örn Helgason 10 og þeir Birkir Guðjónsson, Áskell Jónsson og Erlendur Þór Ottesen 9 stig hver.
 
 
Umfjöllun/ Sölmundur Karl Pálsson
Myndir/ Páll Jóhannesson