KFÍ og KR mættust á Ísjakanum á Ísafirði í kvöld í úrvalsdeild karla. Fyrir leikinn voru liðin sitt hvoru megin í deildinni en KR-ingar voru í 2. sæti og ósigraðir eftir fjóra leiki. Ísfirðingar voru hins vegar í 11. sæti eftir að hafa tapað fjórum fyrstu leikjunum sínum, þar af þremur naumlega.
 
 
Ísfirðingar telfdu fram nýjum leikmanni í leiknum en Valur Sigurðsson gekk til liðs við þá í vikunni eftir að hafa byrjað tímabilið með Skallagrím.
 
Byrjunarliðin
 
KFÍ: Mirko Stefán Virijevic, Ágúst Angantýsson, Jón Hrafn Baldvinsson, Leó Sigurðsson og Jason Smith.
KR: Ingvaldur Magni Hafsteinsson, Helgi Már Magnússon, Darri Hilmarsson, Martin Hermannsson og Pavel Ermolinskij.
 
Jafnræði var með liðunum fyrstu 5 mínúturnar en í stöðunni 11-13 skora KR-ingar 8 stig í röð og leiða 18-26 í lok leikhlutans..
 
Þegar rétt innan við mínúta er eftir af fyrsta leikhluta verða Ísfirðingar fyrir áfalli þegar Hraunar Guðmundsson þurfti frá að hverfa vegna meiðsla eftir að hafa lent í samstuði við Pavel Ermolinskij. Munaði þar um minna en fyrir leikinn var Hraunar með 12,0 stig per leik auk þess að vera með 48% þriggja stiga nýtingu.
 
Breiddin hjá KR kom bersýnilega í ljós í öðrum leikhluta og héldu þeir áfram að bæta í muninn en mest náðu þeir 16 stiga forustu, 39-55, um miðbik leikhlutans. Staðan í hálfleik var svo 46-57 KR-ingum í vil.
 
Ísfirðingar spiluðu prýðisvörn í seinni hálfleik en KR-ingar skoruðu einungis 34 stig í honum. Sóknin náði hins vegar ekki sömu gæðum og náðu þeir því muninum aldrei niður fyrir 7 stig. Fóru leikar svo að lokum að KR-ingar lönduðu öruggum 14 stiga sigri, 77-91.
 
Kr-ingurinn Helgi Már Magnússon var besti maður vallarins en hann setti niður 7 af 11 skotum sínum, skoraði 20 stig og tók 10 fráköst. Martin Hermannsson kom næstur með 18 stig, Jón Orri Kristjánsson setti 14 stig og Darri Hilmarsson og Pavel Ermolinskij bættu báðir við 12 stigum.
 
Mirko Stefán Virijevic var stigahæstur hjá KFÍ með 22 stig auk þess sem hann tók 11 fráköst. Jason Smith kom næstur með 19 stig og baráttujaxlinn Ágúst Angatýsson setti 17 stig og tók 9 fráköst.
 
 
Umfjöllun: SS
Mynd: Benedikt Hermannsson / sportmyndir.com