KR-ingar tróna á toppi Dominosdeildar karla með fullt hús stiga eftir sigur í toppslag deildarinnar í Keflavík í kvöld. KR gerðu 81 stig gegn 70 stigum heimamanna í Keflavík og má segja að úrslit leiksins hafi ráðist í þriðja leikhluta þegar gestirnir hreinlega skelltu í lás í vörninni og spiluðu vörn heimamanna sundur og saman með frábærum leik.
Leikurinn hófst eins og flestir bjuggust við. Jafnt var á flestum tölum hjá báðum liðum en lungann úr fyrri hálfleik þá leiddu heimamenn með þetta þremur stigum að jafnaði. KR-ingar áttu í mesta basli með Michael Craion sem virðist vera gríðarlega erfitt að hemja. Craion er þungur og sterkur leikmaður og erfiður niðri á blokkinni en svo hefur hann líka fína putta í dripplinu og sýnir oft bakvarðatakta sem og fyrsta skref hans eiga allir miðherjar landsins ekki séns í. En þrátt fyrir þetta héldu KR alltaf í við Keflvíkinga en lítið annað markvert gerðist í fyrri hálfleik.
Þegar leið á seinni hálfleik þá byrjaði KR-vélin að malla líkt og diesel strokkur sem hafði verið að hita upp í 20 mínútur. Darri Hilmarsson fór fyrir liði sínu og kveikti þann neista sem síðar varð að stóru báli. Ofan í þá rispu hóf Martin Hermannsson að setja niður hverja körfuna á fætur annari og þegar best við lét hjá KR voru þeir komnir í 15 stiga forystu og það á heimavelli Keflvíkinga. Keflvíkingar reyndu hvað þeir gátu til að brúa þetta bil og voru á köflum á þröskuldinum að snúa leiknum sér í hag. En KR sýndu styrk sinn og kláruðu dæmið örugglega og þar með hirtu þeir toppsæti deildarinnar.
Þegar á heildina er litið hjá Keflvíkingum þá voru allt of margir áhorfendur í þeirra liði. Michael Craion er gríðarlega sterkur strákur sem skilar ávallt sínu (22 stig og 14 fráköst) en hann einn mun ekki koma til með að sigra deildina. Oftar en ekki sá maður fjóra Keflvíkinga standa alla fyrir utan þriggjastiga línuna að fylgjast með Craion fara á allt lið KR. Leikmenn eins og Darrel Lewis voru langt frá sínu besta í kvöld og undirritaður man varla eftir svo slakri frammistöðu frá honum. Svæðisvörn þeirra sem hefur verið nokkuð þétt í vetur var sundurtætt eins og gúmmítuðra í hundskjafti og hvað eftir annað stóðu leikmenn KR undir körfunni galopnir eða þá í fínu færi utan teigs.
KR liðið sendi þarna tóninn inn í deildina og sú spá sem gerð var fyrir mótið ætla þeir í vesturbænum að láta rætast. Liðið er fyrnasterkt og nokkuð góð blanda af leikmönnum. Terry Leake Jr. virðist falla vel í hópinn, þetta er kannski ekki þessi “súper gúffi” sem skorar 20 stig í leik en hann berst vel fyrir sínu á þeim mínútum sem honum er úthlutað. Martin Hermannsson er að springa út og hann spilar þetta bara líkt og sá gamli gerði hér á árum áður og ekki frammistaða hans í vetur hefur skilað honum sæti í byrjunarliðinu hjá Finn þjálfara. X-factor þessa KR liðs er svo Darri “Automatic” Hilmarsson. Einhvernveginn finnst manni að alltaf þegar hann lætur vaða skot á körfuna að boltinn sé á leiðinni niður. Darri var að spila frábæra vörn í kvöld á sinn fyrrum liðsfélaga Guðmund Jónsson og þess á milli var að smella mikilvægum stigum hinumegin á vellinum. Darri líkast til að spila eitt sitt besta tímabil og undirritaður kvittar fyrir það að þarna sé einn mikilvægasti hlekkurinn í þessu KR liði.
Staðan í deildinni
Deildarkeppni | |||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
Nr. | Lið | U/T | Stig | ||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1. | KR | 7/0 | 14 | ||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
2. | Keflavík | 6/1 | 12 | ||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
3. | Grindavík | 4/2 | 8 | ||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
4. | Njarðvík | 4/2 | 8 | ||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
5. | Haukar | 4/2 | 8 | ||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
6. | Þór Þ. | 3/3 | 6 | ||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
7. | Snæfell | 3/3 | 6 | ||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
8. | Stjarnan | 2/4 | 4 | ||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
9. | ÍR | 2/5 | 4 | ||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
10. | Skallagrímur | 1/5 | 2 | ||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
11. | KFI | 1/6 | 2 | ||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
12. | Valur | 1/5 | 2 |