Þegar 8 sekúndur voru eftir af leik Brooklyn Nets og LA Lakers rekst Jason Kidd, þjálfari Nets í Tyshawn Taylor sem er að koma af vellinum. Kidd var með glas í hönd sem fýkur á gólfið. Allir hlaupa til og fara að þurrka og leikurinn stopp á meðan.
 
Hvað gerðist? Kidd enn í sósunni og farinn að sulla á bekknum? Eða bara aldagömul þjálfarataktík til að fá tíma með liðinu sínu þegar maður á engin leikhlé?
 
Þó Kidd sé annálaður svampur og tilefni til drykkju á bekknum í Brooklyn aldrei verið meira, þá er hið síðarnefnda mun líklegri ástæða.
 
Við sjáum í myndbandinu hér að neðan að Kidd kallar til Tyshawn “hit me” og svo skella þeir saman. Svo heyrum við líka Mike Fratello uppljóstra því að hann hafi sjálfur stundað þessa iðju reglulega á meðan hann þjálfaði í deildinni.
 
Ekki bar þetta þó árangur því Brooklyn töpuðu þessum leik 99-94 og sekt á leiðinni inn um lúguna hjá Kidd.