Jason Smith kom KFÍ á sigurbraut í kvöld er hann setti upp þriggja stiga flugeldasýningu í fjórða leikhluta og sleit KFÍ frá gestgjöfum sínum ÍR. KFÍ landaði þar með sínum fyrstu stigum í Domino´s deildinni þetta tímabilið en lokatölur reyndust 76-86 KFÍ í vil. ÍR tapaði þar með öðrum heimaleiknum sínum í röð. Fyrir viðureign kvöldsins hafði KFÍ tapað öllum sex leikjum sínum og fjórum þeirra með minna en 10 stiga mun, Smith neitaði að láta það gerast enn eina ferðina!
 
Mirko Virjevic lék ÍR grátt í fyrsta leikhluta og sallaði niður tíu stigum en það voru engu að síður heimamenn í ÍR sem leiddu 19-18 eftir fyrsta leikhluta. ÍR-ingar léku án Björgvins Hafþórs Ríkharðssonar í kvöld en kappinn er að glíma við meiðsli. Ragnar Örn Bragason steig vel upp í fjarveru Björgvins og lét vel að sér kveða.
 
Ísfirðingar mættu með svæðisvörn inn í annan leikhluta og hún gaf þeim vel og gestirnir leiddu 4-9 í leikhlutanum eftir fimm mínútur. Ágúst Angantýsson var að nýta sín færi vel í kringum körfuna og ÍR að sama skapi í basli með að leysa úr svæði KFÍ svo gestirnir leiddu 36-38 í hálfleik þar sem Jason Smith var með 13 stig í hálfleik og Mirko 10 en hann kom ekki niður stigum í öðrum leikhluta. Hjá ÍR voru Matthías Orri Sigurðarson og Sveinbjörn Claessen báðir með 10 stig.
 
Ragnar Örn Bragason snögghitnaði í þriðja leikhluta og með tveimur þristum minnkaði hann fyrst muninn í 41-44 og síðar í 44-46. Mirko Stefán hafði hinsvegar fundið fjölina að nýju í hálfleik og splæsti í 14 stig í þriðja leikhluta og Ísfirðingar leiddu að honum loknum 59-63 en við kveðjum ekki þessar tíu mínútur án þess að bæta við einum þristi hjá Ragnari Erni er hann minnkaði muninn í 59-61. Gestirnir áttu þó lokaorðið og höfðu því fjögurra stiga forystu fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Sveinbjörgn Claessen jafnaði metin snemma í fjórða leikhluta með þrist og staðan 65-65. Heimamenn í ÍR reyndu einnig fyrir sér í svæðisvörn en þá vildi Jason Smith endilega spreyta sig fyrir utan gegn svæðinu og bombaði niður þremur í röð og kom KFÍ í 72-76 þegar tæpar fjórar mínútur voru til leiksloka.
 
Smith henti niður fjórða þristinum og kom KFÍ í 74-83 þegar tvær mínútur voru til leiksloka og þar með var björninn unninn. Ekkert nema net fjórum sinnum í röð hjá kappanum en sá ætlaði aldeilis ekki heim án stiga.
 
Smith og Mirko voru magnaðir í liði KFÍ með 60 stig af 86. Smith var með 32 stig, 5 stoðsendingar og 3 stolna bolta en Mirko með tröllatvennu eða 28 stig og 18 fráköst. Ágúst Angantýsson var einnig traustur með 14 stig og 12 fráköst.
 
Hjá ÍR bætti Matthías Orri Sigurðarson við annarri þrennu þegar hann gerði 17 stig, tók 10 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Stigahæstur í liði ÍR var Sveinbjörn Claessen með 21 stig og 7 fráköst og Ragnar Örn Bragason skilaði sínu og vel það í fjarveru Björgvins Hafþórs en hann lauk leik með 13 stig og 2 stoðsendingar. Calvin Lennox Henry gerði 19 stig fyrir ÍR og tók 7 fráköst en mætti vera meira lím í varnarleik þeirra ÍR-inga og röskari í sínum aðgerðum.