Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson er á leið á háskólaboltann í Bandaríkjunum næsta haust. Nú er það orðið ljóst að Elvar mun leika með Long Island University (LIU) skólanum í Brooklyn hverfi New York borgar, en skólinn leikur í efstu deild háskólaboltans. Elvar kom heim í dag eftir heimsókn til Bandaríkjanna og gekk frá samingum við skólann nú fyrir stundu. www.vf.is greinir frá.
 
 
Elvar sagðist í samtali við Víkurfréttir vera í skýjunum enda hafi það verið draumur hans lengi að spila í háskólaboltanum vestanhafs. Elvar segir að skólinn hafi verið að leitast eftir leikstjórnanda en sá sem leikur þá stöðu með skólanum fyrir er nú að útskrifast. Sá leikstjórnandi var með flestar stoðsendingar allra í háskólaboltanum í fyrra og Elvar hefur því stóra skó að fylla. „Þeim fannst ég vera svipaður leikmaður og hann. Þeir sáu myndband með mér og buðu mér í raun skólastyrk strax í kjölfarið,“ sagði Elvar en þjálfari annars skóla sem kom til Íslands til þess að fylgjast með Elvari benti Long Island skólanum á Njarðvíkinginn unga.