Þór Þorlákshöfn kláraði Skallagrím í fyrri hálfleik þegar liðin áttust við í Domino´s deild karla í kvöld, lokatölur 110-91. Benedikt Guðmundsson var að vonum sáttur með leik sinna manna og sagði Þórsara helvíti spræka þegar allir legðust á eitt.
 
 
„Við vorum að svínhitta í fyrri hálfleik og alveg hægt að segja að þá hafi leikurinn unnist, sérstaklega í öðrum leikhluta en þar leggjum við langstærsta grunninn að sigrinum. Við fengum framlag frá mörgum í kvöld og þegar við náum því þá erum við bara helvíti sprækir. Þegar við lendum ekki í því að eldri leikmennirnir séu eitthvað að reyna að draga vagnin og þeir ungu koma inn með sitt góða framlag þá lítum við flott út,“ sagði Benedikt sem er sáttur við stöðuna á Þórsliðinu eftir þessa sjö leiki.
 
„Við höfum kannski átt tvo mjög góða leiki og svo höfum við átt hræðilega leiki og allt í rauninni þar á milli. Við leitum eftir stöðugleika eins og margir aðrir í deildinni en það getur verið þolinmæðisverk að fá það í gegn hjá ungum leikmönnum og hvenær það hefst kemur bara í ljós.“
 
Þórsarar leika nú þrjá leiki á sjö dögum sé bikarkeppnin talin með og var Benedikt allt annað en sáttur með uppröðun leikja hjá Þór. „Við eigum KR núna á fimmtudag og bikarleik á sunnudag og leikum þrjá leiki í þessari viku en engann í þeirri síðustu. Það var samþykkt að færa þennan leik gegn Skallagrím vegna sjónvarpsútsendingar sem ekki varð af. Við vildum því fá leikinn á föstudagskvöld svo framhaldið yrði nú skynsamlegt en mótanefnd KKÍ var ekki á því máli. Skallagrímur samþykkti ekki að leikurinn yrði færður aftur á föstudag því þeir væru að koma sínum nýja manni inn í sína hluti en hingað til hef ég ekki vitað til þess að gestalið ákveði hvenær heimalið skuli leika sína leiki. Við viljum helst alltaf hafa okkar heimaleiki á föstudögum hér í Þorlákshöfn svo mótanefnd fær ekkert jólakort frá okkur í ár en við höldum inn í þessa þrjá leiki á tæpri viku bara á fullu gasi.“
 
Næsta stopp hjá Þórsurum er DHL-Höllin á fimmtudag og Benedikt gerir sér fulla grein fyrir því að við ramman reip verður að draga.
 
„KR er að pakka allt og öllum og hafa t.d. ekki gengið endanlega frá kanaígildinu sínu og gætu þessvegna unnið þetta án kana ef því er að skipa. Þetta er langsterkasta liðið sem ég hef séð til þessa í deildinni en við förum í leikinn til að vinna og erum ekkert endilega að spá í því hvað margir landsleikir búi í KR-liðinu en þeir eru örugglega með fleiri landsleiki á bekknum hjá sér en í byrjunarliðinu okkar. Við förum á fullu gasi í leikinn enda getum við unnið alla en á móti kemur þá getum við tapað fyrir öllum og höfum sýnt þetta bæði í okkar leik.“