Grindvíkingar sætta sig ekki við neina meðalmennsku þegar kemur að bandarískum leikmönnum liðsins og hafa þegar sent tvo heim og spilað stóran hluta tímabilsins útlendingalausir.
 
 
Bestu bandarísku leikmenn úrvalsdeildar karla hafa spilað í Grindavíkurbúningnum undanfarin tvö tímabil. J‘Nathan Bullock (2011-12) og Aaron Broussard (2012-13) hjálpuðu Grindavík að vinna Íslandsmeistaratitilinn tvö síðustu ár. Eftirmaður þeirra þarf að fylla stórt skarð og það hefur ekki gengið vel hingað til.
 
„Ég held að metið í Grindavík séu fimm bandarískir leikmenn á einu tímabili og við stefnum bara ótrauðir á að slá það,“ sagði Óli Björn Björgvinsson í óvenju léttum tón þegar Fréttablaðið spurði hann út í vandræðin með bandaríska leikmenn liðsins.
Þriðji bandaríski leikmaður Grindavíkur í vetur náði ekki að spila eina einustu mínútu áður en menn fóru að leita að þeim fjórða.
 
„Hann er ekkert kominn til landsins og við fáum engin leyfi fyrir hann. Við vorum búnir að semja við hann þannig séð en svo kom það bara í ljós að hann fær ekki leyfi,“ segir Óli Björn og ástæðan? „Hann er ekki með hreint sakavottorð. Það er búið að afskrifa hann og það verður dregið aftur í Kanalotteríinu í kvöld. Við erum búnir að kaupa miða,“ segir Óli.