Þór Akureyri hefur gengið frá ráðningu á Bandaríkjamanni fyrir komandi átök í 1. deild karla á næstu leiktíð. Sá kappi heitir Jarrell Crayton og kann vel við sig í háloftunum í kringum körfuna. Það er Thorsport.is sem greinir frá.
 
Jarrell, sem fæddur er árið 1990, spilaði síðast með liði Montana St. Billings í NCAA 2. deildinni þar sem hann var með 16,3 stig og 7,2 fráköst að meðaltali í leik. En hann leiddi lið sitt í stigaskori, fráköstum, vörðum skotum og stolnum boltum. Jarrell er rúmir tveir metrar og spilar stöðu miðherja eða kraftframherja.
 
Jarrell er mikill háloftafugl og á eflaust eftir að vekja athygli áhorfenda með fallegum troðslum og tilþrifum næsta vetur.
 
Í stuttu spjalli við þjálfara Þórs Bjarka Oddsson, kvaðst Bjarki vera mjög sáttur með hafa gengið frá kanamálum snemma. „Jarrell mun koma til með bæta það upp sem okkur skorti síðasta vetur en okkur vantaði óneitanlega kjöt í teiginn en þar sem þetta eru allt saman eintómir snillingar áður en þeir koma til landsins getur einungis tíminn einn leitt í ljós hvort þetta sé maðurinn sem við erum að leita af. Engu að síður erum við gríðarlega spenntir fyrir tilkomu Jarrell Crayton og ég er handviss um að hann eigi eftir að hrífa alla með sér með leikstíl sínum og persónuleika“
 
Hér má sjá nokkuð af kappanum: