Menn láta sólina ekki trufla sig í pappírsvinnunni í Stykkishólminum því þar á bæ hafa sex einstaklingar skrifað undir samning við liðið á síðustu dögum.  Þetta eru bæði leikmenn sem hafa spilað með meistaraflokki kvenna og karla sem hafa spilað með liðunum síðustu ár og yngri leikmenn sem munu vafalaust láta til sín taka með meistaraflokk á næstu árum. Miðað við heimasíðu hólmara hefur verið mikið um manninn við undirskriftirnar og létu hörðustu stuðningsmenn liðsins sig ekki vanta.  
 
 Aníta Rún Sæþórsdóttir og Brynhildur Inga Níelsdóttir skrifuðu bæðar undir eins árs samning við liðið en þær eru gjaldgengar með stúlkna og unglingaflokki ásamt því að leika með meistaraflokki félagsins.  Þær stöllur má sjá á myndinni hérna fyrir ofan ásamt Gunnari Svanlaugssyni, formanni körfuknattleiksdeildar Snæfells.
 
Þorbergur Helgi Sæþórsson og Kristinn Einar Guðmundsson skrifuðu báðir undir eins árs samning og munu leika með unglingaflokki og meistaraflokki félagsins.
 
Síðustu undirskriftir dagsins hjá Snæfell voru heldur þekktari andlit en það voru félagarnir Hafþór Ingi Gunnarsson og Arnar Sveinn Davíðsson sem skrifuðu undir eins árs framlengingu á samningi sínum.  
 
Gisli@karfan.is