Lunddælingurinn Orri Jónsson endurnýjaði samning sinn við Skallagrím sl. mánudag og mun hann því leika áfram með liðinu á næstu leiktíð. www.skallagrimur.is greinir frá.
 
Á heimasíðu Skallanna segir enn fremur:
 
Orri, sem er 180 cm á hæð, leikur stöðu bakvarðar en hann gekk til liðs við Borgnesinga fyrir síðasta keppnistímabil frá FSu á Selfossi þar sem hann hafði leikið í fjögur ár. Hann er fæddur árið 1992 og er frá bænum Lundi í Lundarreykjadal í Borgarfirði og stundar hann nám við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Orri var drjúgur í liði Skallagríms á síðustu leiktíð, skoraði 4,3 stig að meðaltali í leik, hirti 2,5 fráköst og gaf 2,6 stoðsendingar. Hann þykir mikill baráttuhundur, jafnt í vörn sem sókn, og réði óeigingjarnt framlag hans í leikjum Skallagríms á liðinni leiktíð oftar en ekki baggamuninn.