Miami Heat sigruðu SA Spurs í nótt 103:100 eftir framlengdan og nokkuð spennandi leik. Allt leit út fyrir að Tony Parker væri að tryggja Spurs titilinn með frábærum spretti á loka mínútum leiksins en tvö rándýr sóknarfráköst og þristar frá Lebron James og Ray Allen þvinguðu leikinn í framlengingu, en þristurinn frá Allen eitthvað sem við höfum öll séð áður, hraður úr horninu og ekkert nema net. 
 Lítið var skorað í framlengingunni og t.a.m. komu aðeins 2 stig á síðustu tæpum tveimur mínútum leiksins. Þau komu af vítalínunni frá Miami sem eins og fyrr sagði tryggðu oddaleik sem fram fer í Miami á fimmtudagskvöld nk. 
 
“Ég sagði við sjálfan mig að ég yrði að gefa allt í þennan leik og að ef ég myndi tapa þá myndi ég enda þennan leik með “engar kúlur eftir í slíðrinu”.  sagði Lebron James eftir leikinn í nótt en hann spilaði síðasta fjórðung og framlenginguna án svitabandsins sem hann er venjulega með. En eftir að kappinn tók það af fóru hlutirnir að ganga upp hjá Miami og mikið fjaðrafok mun líklega vera næstu daga um hvort kappinn spili síðasta leikinn með svitabandið eða ekki.