Framherjinn Jón Sverrisson hefur samið við Stjörnuna og mun leika með liðinu í Domino´s deild karla á næstu leiktíð. Einhver bið verður þó eftir Jóni sem er enn að jafna sig eftir krossbandaslit sem áttu sér einmitt stað í leik gegn Stjörnunni á síðustu leiktíð. Á Facebook-síðu Stjörnunnar segir þó að vonast sé til þess að kappinn komist í búning fyrir áramót.
 
Jón er uppalinn Fjölnismaður og segir því skilið við Grafarvogsliðið sem féll úr Domino´s deildinni að lokinni síðustu leiktíð og verða gulir því í 1. deild á komandi tímabili.
 
Jón var með 8,7 stig og 6,7 fráköst að meðaltali í leik þá 11 leiki sem hann spilaði með Fjölni á síðasta tímabili og vel þegin viðbót í hópinn í Garðabæ sem hefur á síðustu dögum mátt sjá á eftir Jovan Zdravevski sem fluttur er til Svíþjóðar.
 
Jón var af einhverjum kallaður „leynivopnið“ þegar hann klæddist Fjölnisbúning en í dag er kappinn þekkt stærð og hefur fyrir nokkuð sannað vigt sína í deildinni. Silfurskeiðin verður vísast fljót að finna nýtt „nick“ á sinn nýjasta liðsmann.
 
Mynd/ Af Facebook-síðu Stjörnunnar – Jón og Hilmar Júlíusson formaður KKD Stjörnunnar.