Íris Sverrisdóttir hefur nýverið skrifað undir tveggja ára samning hjá Haukum. Hún er öll að koma til eftir að hafa slitið krossband og hliðarliðband í hné í  úrslitakeppni úrvalsdeildar kvenna á þarsíðasta tímabili. Hún er byrjuð að mæta á æfingar en má einungis skjóta og drippla.
 
Ef krossbandið hefði einungis slitnað segir Íris að hún hefði verið komin á fullt nú þegar en svo var ekki. Ef allt gengur að óskum verður hún byrjuð að æfa á fullu í ágúst en hún stefnir að því að ná fyrsta leik í Lengjubikarnum í september. Aðspurð út í hvort hún finni enn til segir hún að upp komi verkir annað slagið og hún eigi til að bólgna upp. „Það er þó ekkert í samanburði við það hversu fegin ég er að geta spilað aftur.“
 
Írisi lýst vel á tímabilið með Haukum. Guðrún Ámundar er öll að koma til og Haukar eru með sama hóp og á síðasta tímabili. Margar ungar og efnilegar stelpur eru í röðum Hauka og fengu þær töluverða reynslu á síðasta tímabili. Þá á eftir að finna einn kana fyrir komandi tímabil. Íris var ekki tilbúin að yfirgefa Hauka eftir að hafa meiðst en þegar hún var spurð hvort hún hefði ekki viljað fara til baka í uppeldisfélagið, Grindavík, sagði hún að það hafi blundað í sér en hún hafi ekki verið tilbúin að yfirgefa Hauka eins og áður kom fram.
 
JÓÓ