Í gær birtum við frétt um þrjá kvenkyns dómara sem dæmdu leik á Evrópumóti kvenna sem nú stendur yfir og lýkur 30. júní. Þetta var í fyrsta sinn sem þrjár konur dæma saman leik á EM landsliða í kvennaflokki. Rúnar Birgir Gíslason er formaður dómaranefndar KKÍ en engin kona dæmdi leik í meistaraflokkum á Íslandi á síðustu leiktíð. Rúnar vill sjá fleiri konur í dómgæslu og trúir því að með aukinni áherslu á fjölgun dómara þá sé ekki langt að bíða þess að kvenkyns dómarar skjóti upp kollinum á nýjan leik.

Veldur það þér áhyggjum að engar konur sjái hag sinn í að dæma körfuboltaleiki?
Það veldur mér í sjálfu sér ekki áhyggjum að engar konur séu að dæma í dag. Þeir sem hafa áhuga á að dæma koma og dæma og þeir hæfustu ná lengst, sama hvers kyns þeir eru. Það er þó almennt talað um að konur eigi auðveldara með að komast á toppinn en karlar. Í vetur tóku nokkrar konur dómarapróf en engin skilaði sér út á völlinn. En auðvitað vil ég fleiri konur í dómgæslu. Það má líka líta á þetta í stærra samhengi. Afhverju eru ekki fleiri konur í stjórnum félaganna og stjórn KKÍ. Mín reynsla er sú að það eru sárafáar konur sem gefa sig í þetta. Ég hvet konur til að taka dómarapróf og hella sér í þetta. Fyrir tæpum 10 árum voru tvær konur að dæma á fullu, dæmdu m.a. slatta í efstu deild kvenna. Fyrir 30 árum var kona að dæma næst efstu deild karla og stóð sig vel.
 
Er þetta mikið til umfjöllunar innan dómaranefndar?
Þetta hefur ekki verið sérstaklega til umræðu innan dómaranefndar í minni tíð en þar hefur markmiðið verið að fjölga dómurum almennt og sem betur fer hafa konur skráð sig á námskeið og tekið próf en því miður hefur engin þeirra enn þá tekið skrefið lengra.
 
Stendur til að gera gangskör í þessum málum?
Það hefur ekki verið rætt að fara í sérstakt átak, ég trúi að með aukinni áherslu á fjölgun dómara þá fylgi konurnar með, þær sem hafa áhuga þær koma. Ég hvet allar konur til að koma í dómgæslu, taka próf og stíga svo skrefið til fulls. Það er nóg pláss. Ekki síst fyrir þær sem hafa verið að dæma, þær eru velkomnar til baka. Þess má svo til gamans geta að fyrrum formaður dómaranefndar KKÍ og fyrrum framkvæmdastjóri KKÍ, Pétur Hrafn Sigurðsson, á son sem heitir Arnar og hann hefur sett stefnuna á að komast á Ólympíuleikana í Ríó 2016 í frjálsum íþróttum. Margir körfuknattleiksáhugamenn ættu að þekkja til Arnars en Pétur hefur sagt dóttur sinni að taka dómarapróf í körfubolta og að þannig ætti hún jafnvel meiri möguleika á því að komast til Ríó heldur en bróðir sinn!