Úrslitaleikurinn um hvaða lið mætir San Antonio Spurs í úrslitum NBA deildarinnar verður í kvöld í Miami þegar Heat og Pacers mætast í sjöunda leik þessarar frábæru seríu. Leikmenn Indiana Pacers hafa sýnt það og sannað að þeir geta alveg klárað þetta einvígi gegn frábæru liði Heat og á meðan leikmenn á borð við Wade og Bosh eru ekki að skila sínu ætti það að auðvelda þeim lífið.
 
Wade sagði sjálfur að hann hefði alveg verið til í stærra hlutverk í seríunni gegn Pacers en hnémeiðsli hans hafa gert það að verkum að hann hefur ekki getað beitt sér að fullu. Það verður að segjast að það hefur ekki verið eins mikil hjálp í Wade og Bosh eins og vonir stóðust til um í þessari seríu en Wade hefur einungis sett niður 87 stig með 44% hittni og Bosh 68 stig með 41% hittni. Á sama tíma hefur Lebron sett niður 171 stig og hitt tæp 52% utan af velli.
 
Í sjötta leik liðanna setti bæði Wade og Bosh niður 15 stig samtals og voru skömmustulegir í viðtölum eftir leik. Það er alveg ljóst að þeir tveir sem og restin af Miami liðinu verður að taka sig saman í andlitinu og spyrja sig hvort þeir vilji þetta jafn mikið og Lebron en hingað til hefur hann gjörsamlega dregið vagninn fyrir Heat liðið og gott betur.
 
Enn sem komið er hefur tilfinning verið svolítið þannig að Lebron sé sá eini sem hungrar í annan titil hjá Miami og hefur Pacers liðið staðist allar þá hindranir sem Heat hefur sett fyrir þá.
 
Pacersliðið er gífurlega nálægt því að komast í lokaúrslit og spila um titilinn sem Indiana-liðið hefur aldrei unnið en þrisvar sinnum urðu þeir ABA meistarar áður en þeir gengu til liðs við NBA deildina 1976. Það eitt ætti að gefa leikmönnum, aðstandendum og stuðningsmönnum ákveðinn kraft í að gera allt sem hægt er til að klára verkefnið og skila fyrsta titlinum í hús.
 
Leikur Miami Heat og Indiana Pacers hefst kl. 00:30 og er sýndur í beinni á Stöð 2 Sport.