Björn Einarsson kom aftur í heimabæ sinn fyrir þremur árum og hefur verið mikið við þjálfun yngri flokka í Keflavík. Eftir að hann kom heim hefur þeim tekist að vinna 9 titla undir hans stjórn. Bjössi eins og hann er jafnan kallaður er ekki hræddur við að tjá skoðanir sínar og tókum við létt spjall um árangur yngri flokkanna og framtíðina hjá meistaraflokk Keflavíkur.
 
Nú hefur árangur yngri flokka Keflavíkur aukist til muna frá því að þú komst aftur heim fyrir 3 árum. Hafa einhverjar breytingar verið gerðar á uppbyggingu yngri flokka starfsins?
Það hafa kannski verið mestu breytingarnar á stráka flokkunum en undanfarin 3 ár eru loksins komin verðlaun og nokkrir titlar í hús hjá mínum flokkum. Stelpuflokkarnir hafa haldið sínu striki og gott betur en það. Er þetta allt undir topp stjórnun hjá yfirþjálfara Einari Einars en hann hefur verið yfirþjálfari yngriflokka Keflavíkur undanfarin 4 ár! Ég, Jón Guðmunds og Einar vinnum vel saman eftir ákveðnu prógrammi og fer ekki framhjá neinum að þarna fara menn með mikinn metnað, aga og krefjast árangurs í sínu starfi!
 
Verður þú að þjálfa í vetur? Hvað marga flokka?
Er ekki alveg viss hvað ég geri. Fer eftir vinnu en ég byrjaði hjá Isavia í Vopnaleitinni fyrir rúmum mánuði síðan. Ef ég þjálfa næsta vetur þá verð ég allavega ekki með 6-7 flokka eins og oft áður. Tek kannski fjóra flokka ef út í það fer.
 
 
Eru margir efnilegir í yngri flokkum Keflavíkur?
Já fullt af flottum krökkum með mikinn metnað sem mæta vel á skotæfingar og einnig sumaræfingarnar hjá Einari. Meistaraflokkar Keflavíkur verða með nóg af flottum heimamönnum eftir nokkur ár ef haldið verður á hlutunum eins og er búið að gera undanfarin 3-4 ár!
 
 
Hvernig lýst þér á komandi tímabil hjá meistaraflokkunum?
Með tilkomu Gumma Jóns er þetta mjög spennandi en Gummi kemur með þetta sem okkur hefur vantað undanfarin tímabil, hörku varnarbakvörður og auka ógn í sókninni. Einnig var ánægjulegt að fá Þrölla heim eftir stutta veru í sveitinni og klassi að Maggi Gunn hafi loksins skrifað undir samning eftir að Olsen hafi loksins samþykkt eina máltíð á dag! En að öllu gríni slepptu þá verður þetta tímabil áhugavert og spennandi og vonandi að yngri leikmenn Keflavíkur karlamegin æfi eins og menn í sumar og axli meiri ábyrgð en undanfarin ár! Svo verður bara koma í ljós hvort að þessi þjálfari sé eins öflugur og menn segja!
 
Hvað finnst þér um þjálfarabreytingarnar?
Bjóst við að Siggi Ingimundar yrði allavega áfram með annað liðið en annars hef ég lítið um þau mál að segja. Ný stjórn Keflavíkur tekur þessa ákvörðun og það verður bara koma í ljós hvort þetta hafi verið rétt hjá þeim eða ekki. Annars mun nýji þjálfarinn þurfa góðan aðstoðarmann og verður forvitnilegt að sjá hvern þeir ætla fá í það starf.
 
 
Nú er enn og aftur búið að hræra í kanamálunum. Hvað finnst þér um þau mál?
Mjög sáttur með þessar breytingar! Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að hvert lið eigi aðeins að hafa 1 erlendan í sínum leikmannahópi! Með þessari 4+1 reglu erum við að fara sjá fleiri unga íslenska leikmenn blómstra og yngri landsliðin verða betri án nokkurs vafa! Einnig mæta fleiri foreldrar, skyldmenni, vinir, makar osfrv á leikina. Ef við spólum bara aðeins tilbaka þá komu upp legends eins og Teitur Örlygs, Valur Ingimundar, Gauji Skúla, Jón Kr Gísla, Kiddi “Gun”, Palli Kolbeins og fleiri en þá var aðeins 1 kani leyfður í mörg ár! Mætingin á deildarleikina og stemmningin á pöllunum var mun meiri en hefur tíðkast undanfarin ár! Sakna þeirra tíma og hlakka ég mikið til að sjá fleiri unga og íslenska leikmenn á vellinum í vetur!
  
Viðtal/ JÓÓ