Landsliðsmaðurinn Finnur Atli Magnússon og Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir hafa ákveðið að söðla um næsta vetur og spila í Stykkishólmi fyrir lið Snæfells. Þetta var tilkynnt nú í kvöld á blaðamannafundi.  Bæði spiluðu þau fyrir lið KR og því óhætt að segja að þarna sé um mikla blóðtöku að ræða fyrir bæði lið KR þar sem þessir leikmenn hafa verið í nokkuð stórum hlutverkum. 
 
Finnur var á síðasta tímabili að skila í hús 11 stigum og taka um 9 fráköst á leik fyrir KR á þeim 22 mínútum sem honum voru úthlutaðar að meðaltali á leik.  Guðrún hefur kannski ekki verið mikil skormaskína hjá KR en á hinum enda vallarins er hún hárbeitt og hefur reynst ýmsum sóknarlotum andstæðinga sinna erfiður ljár í þúfu. 
 
„Mig langaði að breyta til og prófa eitthvað nýtt, Ingi bauð mér góðan samning og ef ég ætlaði einhverntíma að prófa að breyta þá er tíminn núna. Ég þekki flesta strákana mjög vel og þá sérstaklega Nonna Mæju. Við höfum verið í ýmsum leiðindum inni á vellinum en erum mjög góðir félagar fyrir utan, það er spennandi að flytja út á land, eins og sagt er, í einn fallegasta bæ á landinu. Bróðir minn [Guðmundur Magnússon] þekkir alla króka og kima hérna og formanninn einnig en svo vil ég auðvitað líka fara í lið sem er að berjast um titla og ég geri sömu kröfur á Snæfell eins og hjá KR að sækja alla titla sem í boði eru.” sagði Finnur við Karfan.is
 
Guðrún Gróa er einn af bestu varnarmönnum kvennadeildarinnar og virkilega mikill styrkur í liðið með mikla reynslu og titla á bakinu úr vesturbænum. Guðrún var með 8,2 stig og 7.5 fráköst að meðaltali í 35 deildarleikjum síðasta vetur hjá KR. „Ég var algjörlega óákveðin í hvað ég ætlaði að gera, klára skóla í haust eða gera eitthvað allt annað kannski og þetta hljómaði virkilega spennandi. Það er gaman að prófa eitthvað nýtt, viðkunnalegur staður, alltaf gaman að koma hingað og svo þekki ég Inga Þór og Hildi Sigurðardóttir mjög vel ásamt því að kannast við hinar stelpurnar. Þetta er bara alltaf annar pakki en ég verið í og er mjög heillandi.” sagði Guðrún Gróa í samtali við Karfan.is   
 
Þá voru fleiri sem settu blek á blað í kvöld því heilmikið havarí var á Hótel Stykkishólmi þegar endurnýjaðir voru leikmannasamningar við marga af þeim leikmönnum sem leikið hafa með karla og kvennaliði Snæfells síðustu ár. Fyrir utan Jón Ólaf og Kristján Pétur sem skrifuðu undir nýverið hafa Pálmi Freyr, Hafþór Gunnarsson og Stefán Karel skrifað undir.
Sigurður Þorvaldsson, Jóhann Kristófer og Óttar Sigurðsson skrifuðu undir í kvöld.
 
 
Í kvennaliðinu skrifuðu allmargar undir, en þær sem voru síðasta tímabil skrifuðu næstum allar undir í dag. Hildur Sigurðardóttir, Hildur Björg, Alda Leif, Berglind Gunnarsdóttir, Helga Hjördís, Aníta Rún, Rebekka Rán og Silja Katrín voru allar á síðasta tímabili og verða áfram.
 
Myndir/ Eyþór Benediktsson: Guðrún Gróa og Finnur ásamt Gunnari Svanlaugssyni formanni KKD Snæfells.