KR tók í kvöld 1-2 forystu í undanúrslitaeinvígi sínu gegn Snæfell í Domino´s deild kvenna með stórum og öruggum sigri í Stykkishólmi. Lokatölur 50-73 þar sem Snæfell gerði aðeins 17 stig allan fyrri hálfleikinn!
 
Fyrstu stig leiksins komu á slaginu 8:00 og tók liðin tvær mínútur að skora en Snæfell komst þá strax í 4-0. Liðin hófu leik varfærnislega og ætluðu sér lítil sem engin mistök sóknarlega. Shannon McCallum skoraði næstu sex stig fyrir KR og staðan 4-6. Gríðalega erfiðlega gekk að koma boltanum í körfuna hjá liðunum og lítið skorað og einbeiting í varnarleiknum. KR gekk betur á lagið og staðan var 8-17 eftir fyrsta hluta þar sem Shannon McCallum hafði skorað 15 stig. Snæfellsstúlkur voru að fá fín færi, klikkuðu of oft og voru eilítið á hælunum í vörninni.
 
Lánleysi Snæfells var algert og vart hefur sést annað eins í upphafi annars hluta, skot skrúfuðust upp úr körfunni og öll fráköst lentu í höndum KR sem komust í 8-23 og var Sara Mjöll að koma sterk inn af bekknum fyrir þær. Snæfell skoraði ekki stig fyrstu sjö mínútur annars hluta og var staðan þá 10-27 fyrir KR sem voru að spila annars mjög fínan varnaleik gegn taugveikluðum sóknarleik Snæfells. Snæfell klóraði aðeins í bakkann í lok fyrri hálfleiks en staðan var 17-33 í hálfleik en 18-0 kafli KR var allsvakalegur.
 
Stighæstar hjá Snæfelli var Kieraah Marlow með 10 stig og 12 fráköst og Berglind Gunnarsdóttir með 5 stig. Í liði KR var Shannon McCallum komin með 20 stig og Sara Mjöll 8 stig en Sigrún Sjöfn var komin með 10 fráköst.
 
Snæfell þurftu heldur betur að laga sinn leik og keyra á KR til að ná þeim en skynsemin var ekki oft með þeim á köflum. Á meðan náði KR að halda forystu sinni og bæta við og staðan varð 28-49 fyrir KR sem voru nokkrum skrefum sprækari á vellinum. Björg Guðrún og Rannveig settu niður stór skot sem héldu KR við efnið og í þægilegu forskoti 31-55 eftir þriðja hluta.
 
Þegar 5 mínútur voru eftir af leiknum var staðan 37-68 fyrir KR og ekkert í kortunum lengur í leik Snæfells sem gaf til kynna að þær væru á leið í leikinn að ráði. KR stúlkur voru mjög duglegar í leiknum og börðust mjög vel fyrir öllum boltum sem og í fráköstum og voru samstilltar varnarlega. Snæfelli til óláns var helst til lítið flæði í sóknarleiknum sem gerði allt stirt og lélegar sendingar og skot litu dagsins ljós, vörnina höfum við séð töluvert betri. Enn einn útisigurinn í undanúrslitum kvenna og lokatölur í Stykkishólmi 50-73 og KR leiðir nú einvígið 2-1 og næsti leikur í DHL höllinni á laugardaginn kl 16:00.
 
 
Byrjunarliðin.
Snæfell: Kieraah Marlow, Hildur Björg, Hildur Sigurðardóttir, Berglind Gunnarsdóttir, Helga Hjördís.
KR: Guðrún Gróa, Helga Einarsdóttir, Björg Guðrún, Sigrún Sjöfn, Shannon McCallum. 
 
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín