Þess ætti vart að vera þörf en við gerum það engu að síður að minna fólk á að mæta tímanlega í DHL Höllina í kvöld þegar fjórða viðureign KR og Grindavíkur fer fram í undanúrslitum Domino´s deildar karla. Leikurinn hefst kl. 19:15 og verður í beinni útsendingu hjá Stöð 2 Sport. Þá hefst einvígi Vals og Hamars í 1. deild karla í baráttunni um laust sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
 
Grindavík leiðir 2-1 gegn KR og þarf því bara einn sigur til viðbótar til að komast inn í úrslit. Í hinu einvíginu eigast við Snæfell og Stjarnan þar sem Garðbæingar leiða 1-2. Takist KR að landa sigri í kvöld gegn Grindavík verður blásið til oddaleiks í Röstinni þann 15. apríl.
 
Í Vodafonehöllinni kl. 20:00 mætast Valur og Hamar í 1. deild karla en þetta er fyrsti leikur liðanna í úrslitum 1. deildar. Eins og þegar hefur komið í ljós eru Haukar deildarmeistarar og munu leika í Domino´s deild karla á næsta tímabili. Valur lagði Þór Akureyri í undanúrslitum en Hamar hafði betur gegn Hetti. Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki í úrslitarimmu Vals og Hamars tryggir sér þátttökurétt í úrvalsdeildinni næsta tímabil.
 
Þá er einn leikur í unglingaflokki karla í kvöld þegar Haukar taka á móti Tindastól kl. 18:10.
 
Mynd/ skuli@karfan.is