Birna Valgarðsdóttir var jafnvel að hugsa um að hvíla lúin bein í lokaumferð Dominos-deildar kvenna í kvöld og safna kröftum fyrir komandi úrslitakeppni en það breyttist fljótt þegar blaðamaður Fréttablaðsins lét hana vita af því í gær að hana vantaði bara 17 stig til þess að bæta stigamet Önnu Maríu Sveinsdóttur í efstu deild kvenna á Íslandi. Fréttablaðið/www.visir.is greina frá þessu í dag.
 
Birna hefur líklega bara einn leik til þess að ná því – hér er aðeins um stig í deildarleikjum að ræða en stig í leikjum í úrslitakeppni eru ekki talin hér með. Birna er orðin 37 ára gömul og var plötuð til að taka eitt ár í viðbót. Það er því allt eins líklegt að hún sé að spila sinn síðasta deildarleik í kvöld.