Nú er nokkuð ljóst að Fjölniskonur þurfa sigur í öllum fjórum deildarleikjum sínum það sem af lifir þessu tímabili til þess að forða sér frá falli í 1. deild kvenna. Fjölnir er á botni Domino´s deildar kvenna með 6 stig en Grindavík í næst neðsta sæti með 12 stig. Átta stig eru eftir í pottinum og Grindavík búið að vinna þrjá leiki gegn Fjölni á tímabilinu og hefur því betur innbyrðis.
 
Fjölniskonur þurfa að treysta því að Grindavík tapi rest, þær vinni alla sína fjóra leiki sem eftir eru og þannig og aðeins þannig tekst Fjölni að forða sér frá falli. Gular Grafarvogskonur töpuðu naumlega um helgina gegn Val, 74-80 en það var fjarri því í fyrsta sinn í deildinni í vetur sem botnliðið tapar leik með 10 stiga mun eða minna.
 
Alls hefur Fjölnir tapað 10 leikjum í deildinni með 10 stiga mun eða minna. Síðustu tveir leikir gegn Grindvíkingum hafa þó tapast stórt.
 
Þeir fjórir leikir sem Fjölnir á eftir eru gegn KR heima núna á miðvikudagskvöld, gegn Haukum á útivelli, gegn Grindavík í Dalhúsum og Fjölniskonur mæta svo Keflavík í lokaumferð deildarinnar þann 27. mars.
 
Staðan í Domino´s deild kvenna
Deildarkeppni
Nr. Lið U/T Stig
1. Keflavík 20/3 40
2. Snæfell 19/5 38
3. KR 15/8 30
4. Valur 13/11 26
5. Haukar 11/13 22
6. Njarðvík 8/16 16
7. Grindavík 6/18 12
8. Fjölnir 3/21 6