Fjölnismenn komust í kvöld úr fallsæti í Domino´s deild karla með fræknum 79-70 sigri á ÍR í Dalhúsum. Með sigrinum eru Fjölnismenn í 10. sæti deildarinnar með 10 stig og ÍR í 11. sæti með jafn mörg stig þar sem Fjölnismenn hafa betur innbyrðis. Tíu leikja taphrina Fjölnis er nú á enda og sannast hið fornkveðna að öll él styttir upp um síðir.
 
Fjölnismenn vildu sigurinn einfaldlega meira og óhætt að segja að ÍR-ingar hafi ekki mætt nægilega vel stemmdir til leiks í kvöld þrátt fyrir 2-8 byrjun þá fjaraði fljótlega undan gestunum sem voru komnir undir 24-15 að loknum fyrsta leikhluta og því 22-7 viðsnúningur hjá gulum sem setti ÍR á hælana.
 
Heimamenn í Fjölni juku svo forystuna í 44-32 og þannig stóðu leikar í hálfleik en heimamenn þéttu varnarleikinn og þvinguðu gestina oft í erfið skot.
 
Tómas Heiðar Tómasson var að leika vel í liði Fjölnis í kvöld en að sama skapi var máttarstólpi hjá ÍR á borð við Nemanja Sovic snemma kominn í villuvandræði og hafði það sitt að segja en spilaði t.d. ekkert í öðrum leikhluta. Munurinn var kominn í 15 stig að loknum þriðja leikhluta, 60-45 en ÍR beit frá sér á lokasprettinum og unnu fjórða leikhluta 19-25 en það dugði ekki til að sinni.
 
Christopher Smith var drjúgur í liði Fjölnis í kvöld með 22 stig og 22 fráköst! Þeir Ingvaldur Magni og Tómas Heiðar bættu svo báðir við 15 stigum. Hjá ÍR var sem fyrr Eric James Palm stigahæstur með 21 stig og 9 fráköst en var nokkuð fjarri sínu besta í kvöld og hitti illa framan af leik.
 
Nú eru Fjölnir, KFÍ og ÍR öll jöfn að stigum í botnsætum deildarinnar með 10 stig en fyrir ofan þau koma Tindastólsmenn með 12 stig og Skallagrímur með 14 svo enn geta orðið töluverðar breytingar. Kapparnir úr Hertz Hellinum verða þó að sýna á sér sterkari hliðar næstu tvo leiki ef ekki á illa að fara en Fjölnismenn lönduðu langþráðum sigri og verður fróðlegt að sjá hvaða áhrif það muni hafa á hópinn í Dalhúsum.
 
 
Mynd/ Karl West