Eins og þegar hefur komið fram var um síðustu helgi samþykkt að á næstu leiktíð myndi úrvalsdeild karla leika undir svokallaðri 4+1 reglu þar sem aðeins einn erlendur leikmaður í hverju liði hefur heimild til að vera inni á vellinum hverju sinni. Örvar Þór Kristjánsson aðstoðarþjálfari Njarðvíkinga sagði í kvöldfréttum í kvöld að íslenskar stórstjörnur vantaði í boltann og að gefa þyrfti nýju reglunni meiri tíma. Átti hann þá vísast við að gefa henni meiri tíma en að breyta henni aftur strax á næsta körfuknattleiksþingi eins og jafnan hefur verið venjan hér síðustu ár.
 

Örvar sagði í íþróttafréttum RÚV í kvöld að vöntun væri á íslenskum stórstjörnum í boltann hér heima og að fækkun erlendra leikmanna í deildinni gæti mögulega minnkað gæði deildarinnar en að fólk myndi vart taka eftir því. Íslensku leikmennirnir þyrftu nú að stíga upp og láta meira til sín taka sem hlyti að skila sér í betri leikmönnum.
 
 
Mynd/ Örvar þjálfaði lið Fjölnis á síðustu leiktíð.