Dýrmætur sigur hjá Þórsurum í Icelandic Glacial Höllinni í kvöld þegar Tindastóll kom í heimsókn. Sigurinn var silfurliði síðasta tímabils ekki að kostnaðarlausu þar sem Darri Hilmarsson gæti mögulega verið úr leik það sem eftir lifir tímabils. Þór vann leikinn 83-81 eftir æsispennandi slag en Darri meiddist snemma og þurfti aðhlynningu á sjúkrahúsi vegna meiðsla sinna en hann lenti í samstuði við leikmann Tindastóls.
Þór vermir nú 2. sæti Domino´s deildarinnar með 28 stig eins og Snæfell í 3. sæti en Þór hefur betur innbyrðis á milli liðanna. Tindastóll er sem fyrr í 9. sæti deildarinnar með 12 stig.
Gestirnir byrjuðu ferskir en heimamenn leiddu 20-18 að loknum fyrsta leikhluta með þrist frá David Jackson. Þórsarar voru að mestu með forystuna í kvöld en Stólarnir komust stöku sinnum yfir en heimamenn leiddu með þremur stigum í hálfleik. Hið sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik en á lokaprettinum hljóp heldur betur fjör í leikinn.
Drew Gibson stal boltanum af Benjamin Curtis Smith þegar um 40 sekúndur voru til leiksloka, dæmd var óíþróttamannsleg villa á David Jackson fyrir vikið, gestirnir fengu tvö víti, innkast og skoruðu aftur með körfu frá Helga Frey Margeirssyni og Stólarnir komnir yfir 78-80 þegar hálf mínúta var eftir!
Heimamenn komust í 81-80 þegar 14 sekúndur voru til leiksloka og gestirnir misstu boltann í næstu sókn, urðu að brjóta og Guðmundur Jónsson fór svellkaldur á línuna og kom Þór í 83-80. Heimamenn brutu á Tindastól þegar tvær sekúndur voru eftir og Svavar Atli Birgisson fór á línuna, setti fyrra vítið og því mikilvægt að brenna af því síðara sem hann og gerði. Turnarnir Grétar Ingi og David Jackson stóðu vaktina vel á blokkinni, náðu frákastinu og leiktíminn rann út, tvö rándýr stig í hús hjá Þórsurum sem komu sér enn betur fyrir í baráttunni um deildarmeistaratitilinn.
,,Við þurftum á þessum sigri að halda,” sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari Þórs eftir leikinn í samtali við Karfan.is. ,,Það er alveg sama hverjir eru að mætast, þetta eru allt ,,do or die” leikir, bæði í efri og neðri hlutanum, það eru allir að reyna að koma sér í þægilega stöðu. Ég er sérstaklega ánægður með að vinna Stólana, síðan 2011 þegar Þór kom upp í úrvalsdeild höfum við aðeins unnið þá einu sinni fyrir kvöldið í kvöld en tapað fjórum sinnum,” sagði Benedikt og benti á styrk Stólanna.
,,Stólarnir eru sterkir, bakverðir þeirra pósta okkur mikið upp og þetta hefur oftar en ekki verið erfiðustu leikirnir en það er ánægjuefni að hafa náð að vinna þá bæði heima og úti í vetur,” sagði Benedikt en framundan eru stór verkefni hjá Þórsurum, Keflavík á útivelli og þar næst Snæfell heima og lokaleikurinn gegn Skallagrím í Borgarnesi.
Næstu leikir Tindastóls, gegn Njarðvík heima, ÍR úti og Stólarnir mæta svo Grindavík á heimavelli í lokaumferðinni.
Mynd/ Hjalti Vignis