Það var ljóst strax í byrjun hvert stefndi í kvöld. KR-ingar komu gríðarlega einbeittir til leiks í Icelandic Glacial Höllinni og ætluðu sér sigur í fyrsta leik í úrslitakeppninni. Þórsarar áttu engin svör við frábærri vörn KR-inga og lokatölur kvöldsins komu eflaust flestum á óvart, 83-121. Gestirnir keyrðu í bakið á heimamönnum allan tímann og gáfu þeim engan séns á að stilla upp í vörnina. Staðan eftir 1. leikhluta 17 – 30 gestunum í vil!
 
Sama stemmningin var í liði gestanna í öðrum leikhluta. Mikil keyrsla og frábær vörn. Þeir voru fastir fyrir og létu finna fyrir sér allan tímann. Meðan að vörn heimamanna var eins og gatasigti. Sóknarleikur heimamanna var tilvijunarkenndur og virkaði mjög hægur. Skotin voru ekki að detta hjá þeim á meðan allt fór niður hjá KR. David Jackson endaði leikhlutann með flautukörfu og staðan í hálfleik 34 – 61.
 
Þórsararnir í stúkunni vonuðu að heimamenn kæmu dýrvitlausir til leiks í seinni hálfleik en þær vonir hurfu mjög fljótlega úr augum þeirra. Gestirnir héldu áfram að spila fasta og góða vörn. Ekki versnaði sóknin hjá þeim heldur. Vörn heimamanna hriplak en sóknin skánaði örlítið. Staðan eftir 3. leikhluta var 57 – 90 gestunum í vil.
 
Liðin skiptust á að skora í lokaleikhlutanum. Benni skipti fljótlega öllum ungu strákunum inn á. Þá loksins kom upp alvöru barátta og menn sýndu þetta flotta Þórshjarta sem vantaði svo klárlega framan af leik. Ungu strákarnir komu inn óhræddir við gestina og sölluðu niður stigum þó svo KR-ingar hafi verið betri aðilinn. Lokatölur 83-121!. Martin Hermannsson var gjörsamlega frábær í þessum leik með 33 stig og greinilegt að þessi ungi og efnilegi drengur hefur allt sem til þarf til að verða stjarna í boltanum. Kristófer Acox átti líka frábæran leik með 21 stig.
 
KR leiðir einvígið því 1-0 og getur með sigri á sunnudag komið sér í undanúrslitin. Ef Þór nær að jafna einvígið verður oddarimma í Þorlákshöfn.
 
 
 
 
Myndir/ Davíð Þór
Umfjöllun/ HH