Þór lagði topplið Vals í bráðfjörugum og skemmtilegum leik sem fram fór í íþróttahúsinu við síðuskóla í kvöld en Valsmenn töpuðu þar með öðrum leik sínum í röð eftir þrettán sigurleiki í deildinni.
 
Þórsarar mættu gríðarlega vel stemmdir til leiksins í kvöld og það var alveg ljóst að þeir ætluðu að selja sig dýrt og hirða bæði stígin sem í boði voru. Heimamenn höfðu talsverða yfirburði í fyrsta leikhlutanum og léku á alls oddi og þegar upp var staðið höfðu þeim tólf stiga forystu eftir fyrsta leikhlutann.
 
 
Valsmenn komu svo mjög ákveðnir til leiks í öðrum leikhlutanum og byrjuðu að saxa á forskot Þórs og leikurinn tók algerlega nýja stefnu. Gestirnir léku á alls oddi og röðuðu niður hverji körfunni á fætur annarri á meðan ekkert gekk upp hjá Þór. Valsmenn höfðu mikla yfirburði í leikhlutanum og voru fljótir að jafna leikinn og komast yfir og þegar liðin gengu til búningsklefa höfðu gestirnir náð þriggja stiga forskoti 37-40. Þeir unnu leikhlutann 7-22.
 
 
Það má leiða að því líkum að Bjarki Ármann hafi lesið hressilega yfir Þórsliðinu í hálfleik því Þórsliðið fór að spila líkt og þeir gerðu í fyrsta leikhlutanum. Baráttan til fyrirmyndar vörnin fór að smella aftur saman og leikmenn Þórs náðu aftur góðum tökum á leiknum og leikhlutann vann liðið 30-18 og leiddi því með níu stigum þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst þá var staðan 67-58.
 
 
Fjórði og síðasti leikhlutinn fór rólega af stað en smán saman bættu heimamenn í og juku forskotið jafnt og þétt og varnarleikurinn var hreint út sagt frábær. Valsmenn áttu engin svör við góðum leik heimamanna í lokaleikhlutanum og fór svo að Þór vann fjórðunginn 18-10 og sautján stiga sigur Þórs í höfn 85-68.
 
 
Sigur Þórs á toppliði Vals kemur heimamönnum í þægilega stöðu í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni en mótið er ekki búið og allt getur gerst. Þórsliðið var drifið áfram af stórleik Ólafs Arons Ingvasonar sem skoraði 31 stig í kvöld en sigurinn er klárlega liðsheildarinnar. Halldór Örn og Óðinn áttu flottan leik í kvöld, Darko með frábærann varnarleik og ungu strákarnir Sindri og Vic Ian létu svo sannarlega til sín taka í kvöld.
 
 
Það er ljóst að Valsliðið saknar erlenda leikmannsins sem leikur ekki meira með liðinu vegna fótbrots en þeir sýndu í kvöld að það er engin tilviljun að þeir eru á toppi deildarinnar.
 
Stig Þórs í kvöld: Ólafur Aron 31, Halldór Örn Halldórsson 15, Óðinn Ásgeirsson 13. Sindri Davíðsson og Vic Ian Damasin 7 hvor, Darko Milisevic og Elías Kristjánsson 6 hvor.
 
 
Hjá Val voru þeir Atli Rafn Hreinsson og Ragnar Gylfason atkvæðamestir með 18 hvor.
 
 
Valsmenn eru sem fyrr á toppi deildarinnar með 26 stig en Þór í því fimmta nú með 18 stig.
 
 
Viðtal við Ólaf Aron
 
Umfjöllun og mynd/ Páll Jóhannesson