Hlynur Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson komust í kvöld í 2-0 með Sundsvall Dragons í úrslitakeppni sænsku úrvalsdeildarinnar er liðið lagði 08 Stockholm 90-98 á útivelli. Pavel Ermolinskij og félagar í Norrköping töpuðu stórt eða 104-80 gegn Boras á útivelli og einvígi Norrköping og Boras því jafnt, 1-1.
 
Boras Basket 104-80 Norrköping Dolphins (1-1)
Pavel gerði 10 stig í leiknum á tæpum 27 mínútum og tók einnig 9 fráköst, engin var skráð á hann stoðsendingin en það er vísast lengra síðan elstu menn muna hvenær Pavel gaf ekki stoðsendingu. Christian Maraker var stigahæstur hjá Norrköping í leiknum með 14 stig.
 
08 Stockholm 90-98 Sundsvall Dragons (2-0 fyrir Sundsvall)
Jakob Örn var stigahæstur í sigurliði Sundsvall með 26 stig, 5 fráköst og 2 stoðsendingar og Hlynur Bæringsson nartaði í þrennuna með 17 stig, 13 fráköst og 8 stoðsendingar. Sundsvall þarf einn sigur til viðbótar til að tryggja sér sæti í undanúrslitum keppninnar.