Tveir oddaleikir fara fram á Skírdag í Domino´s deild karla en þá eigast við Stjarnan og Keflavík annarsvegar og svo Snæfell og Njarðvík hinsvegar. Nú er það komið á hreint að viðureign Stjörnunnar og Keflavíkur verður sýnd í beinni útsendingu hjá Stöð 2 Sport.
 
Karfan.is mun að sjálfsögðu greina ítarlega í máli og myndum frá báðum leikjum en ekki þarf að fjölyrða um þá kergju sem komin er í einvígi Stjörnunnar og Keflavíkur. Sigurður Ingimundarson og Kjartan Atli Kjartansson hafa t.d. farið mikinn og þá sér í lagi á Vísir.is í gær.
 
 
 
 
Þá sendi Jovan Zdravevski frá sér yfirlýsingu eftir að hafa verið hent út úr húsi og Magnús Þór Gunnarsson sagðist í samtali við Karfan TV ekki vera floppari.
 
 
Ofangreint og fleira til ætti að vera nóg til að uppselt verði í Ásgarði á fimmtudag og vísast vonast flestir til þess að íþróttin fái að njóta sín í jafn stórum og mikilvægum leik en ekki bolabrögð og annar refsháttur.