Búið er að bæta við 100 VIP miðum á sýningu Harlem Globetrotters hérlendis þann 5. maí næstkomandi vegna gríðarlegrar eftirspurnar. Uppselt var snemma í VIP sætin á sýningunni í Kaplakrika og hafa forsvarsmenn sýningarinnar hér því tekið upp á því að bæta við 100 VIP miðum sem hægt er að nálgast á midi.is
 
Björgvin Rúnarsson fer fyrir málefnum Harlem Globetrotters á Norðurlöndunum og bendir hann fólki á að tryggja sér miða í tæka tíð því aðeins er um þessa einu sýningu að ræða.
 
,,Nú er búið að selja á þriðja þúsund miða á sýninguna þann 5. maí í Kaplakrika en ,,Krikinn” tekur um 3000 manns og er þá algjörlega pakkaður,” sagði Björgvin og bætti við. ,,Þá er það alveg morgunljóst að áhorfendamet verður slegið í Krikanum og á einnig áhorfendamet á ,,körfubolta-show” hér á landi.”