Haukar fengu Snæfell í heimsókn í Schenkerhöllina í gær í 24. umferð Dominosdeildar kvenna þar sem að Snæfell sigraði örugglega 50-78. Haukar voru búnar að vera á góðu skriði og lögðu Reykjanesliðin þrjú í seinustu leikjum sínum og möguleikarnir á að komast í úrslitakeppnina voru farnir að opnast aftur en þá lentu þær á vegg. Snæfell yfirspiluðu þær á öllum sviðum leiksins og eru ekki búnar að gefa upp vonina á að ná fyrsta sætinu í deildinni. Það var hrein unun að horfa á spilamennsku Snæfells. Það skipti ekki máli hvað Haukar reyndu að grípa til ráðs á móti þeim, Snæfell svaraði. Haukar hófu leikinn á því að loka miðjunni, þá létu Snæfellsstúlkar rigna þristum yfir þær. Þegar Haukar reyndu svo að stoppa þristaregnið þá fór Snæfell auðveldlega að körfunni í staðinn.
 
Byrjunarlið Hauka: Auður Íris Ólafsdóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, María Lind Sigurðardóttir, Jóhanna Björk Sveinsdóttir og Siarre Evans.
Byrjunarlið Snæfells: Kieraah Marlow, Hildur Björg Kjartansdóttir, Hildur Sigurðardóttir, Berglind Gunnarsdóttir og Alda Leif Jónsdóttir.
 
Það tók Snæfell rétt rúmar fjórar mínútur að komast tíu stigum yfir á móti Haukum og leiddu þær í lok leikhlutans 13-28. Leikhlutinn einkenndist af þriggjastigaskotum og áttu Haukar sex slík skot en ekkert þeirra for ofan í körfunna á meðan að Snæfell setti fimm af sínum níu skotum niður, þar af átti Rósa Indriðadóttir tvo stykki.
 
Í öðrum leikhluta kom smá værukærð yfir Snæfell og Haukar reyndu að spila sig aftur inn í leikinn. Um miðjan leikhlutann átti Siarre Evans góða rispu og skoraði 9 af 11 stigum Hauka í 11-1 áhlaupi. Haukum tókst að vinna leikhlutann en nær komust þær ekki.
 
Snæfell gerðu út um leikinn í þriðja leikhluta með því að vinna hann örugglega 8-24. Eins og allan leikinn er ekki hægt að segja að neinn ákveðinn leikmaður hafi staðið upp úr hjá Snæfell þar sem að allar voru að skila gríðarlega góðum leik og liðsheildin hjá þeim alveg hreint mögnuð. Ekkert gekk hjá Haukum en þær reyndu og reyndu en uppskáru ekki nema 2 skot niður í 24 tilraunum, og þar af hirti Snæfell meiri hlutann af fráköstunum.
 
Með sigurinn svo gott sem komin þá fékk Rebekka Rán Karlsdóttir að spreyta sig allan fjórða leikhlutann og kláraði hún leikinn með glæsibrag, átti stoðsendingu, setti þrist og stal svo loka sendingu leiksins. Einnig leyfði Ingi Þór Steinþórsson Silju Katrínu Davíðsdóttur, Anítu Sæþórsdóttur og Brynhildi Ingu Níelsdóttur að spreyta sig. Hjá Haukum fengu Sylvía Rún Hálfdanardóttir, Aldís Braga Eiríksdóttir og Þóra Kristín Jónsdóttir að spila.
 
Stigahæstar hjá Haukum voru: Siarre Evans 26 stig/13 fráköst/5 stolnir boltar.
 
Stigahæstar hjá Snæfelli voru: Kieraah Marlow 14 stig/5 fráköst/5 stoðsendingar, Alda Leif Jónsdóttir 13 stig/6 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 12 stig/6 fráköst.
 
Leikmaður leiksins: Snæfell eins og það leggur sig
 
Nánari tölfræði að finna á vef KKÍ
 
Mynd/ Úr safni