Jakob Sigurðarson og Hlynur Bæringsson tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í sænsku úrvalsdeildinni nú fyrir skömmu en í fyrsta leik sem nýjir deildarmeistara töpuðu þeir illa gegn Uppsala á heimavelli í gærkvöldi.  Vissulega blaut tuska í andlitið og ekki laust við að værukærð hafi hlaupið í liðið eftir að hafa tryggt sér heimavallarréttinn í úrslitakeppninni. 
Jakob Sigurðarson svaraði nokkrum spurningum frá okkur hér á Karfan.is nú í dag og augljóslega var fyrst spurt um hvað hafi eiginlega gerst í leiknum í gær?
 
“Við eiginlega bara brotnuðum í gær. Byrjuðum illa og svo misstum við alla stjórn á leiknum. Kannski slökuðum við of mikið á andlega, ég veit það ekki. Það ætlar sér engin að gefa heimaleik og tapa með 30 en það gerðist og við verðum einhvern veginn að reyna að nýta okkur þetta á jákvæðan hátt fyrir úrslitakeppnina.”
 
Hugsanlega er segja einhverjir að þetta hafi verið hollt fyrir liðið svona skellur rétt fyrir úrslitakeppnina ætti að koma öllu liðinu á tærnar. En við hverju býst Jakob við í fyrstu umferð í úrslitakeppninni og hvernig sér hann þá keppni spilast fyrir sitt lið?
 
“Við spilum við annað hvort 08 Stockholm eða LF í fyrstu umferð. Við erum 3-0 á móti báðum liðum í vetur. Ég vill samt frekar mæta 08. Bæði af því það er mun styttra ferðalag og svo hefur LF líka verið að spila mjög vel og unnið síðust 4-5 leikina sína. Maður vill helst ekki mæta liði sem er að toppa þegar úrslitakeppnin er að byrja.Ég held að ef við komumst í undanúrslit að þá mætum við annað hvort Boras eða Norrköping. Og ef við komumst í úrslit þá er langlíklegast að annað hvort Uppsala eða Södertalje verði þar. Samt veit maður aldrei með lið eins og LF sem er með sterkan heimavöll norður í rassgati og hefur verið að spila mjög vel síðustu vikurnar.”