Það var ekki sérlega rishár körfubolti sem boðið var upp á í Iðu þegar FSu tók á móti Reyni frá Sandgerði. FSu liðið getur miklu betur en það sýndi í þessum leik en frammistaðan í gærkvöld dugði þó til 9 stiga sigurs, 103-94.
 
Reynisliðið spilaði af mikilli skynsemi lengst af og nýtti vel styrkleika sína. Í liðinu eru nokkrir vel spilandi strákar sem erfitt er að eiga við. Guðmundur Auðunn var t.d. fyrrum félögum sínum erfiður ljár í þúfu og honum virtist raunar ómögulegt að brenna af skoti. Því miður fyrir Guðmund, og Reynisliðið, meiddist hann á hendi og gat ekki tekið þátt í leiknum eftir það, náði aðeins 20 mínútum og var þar skarð fyrir skildi.
 
Leikurinn var jafn allan fyrsta hluta og gestirnir komust yfir, 20-21, með síðasta skotinu. Í öðrum hluta hristi FSu af sér mesta slenið, skoraði 33 stig gegn 21 og var komið í 12 stiga forystu fyrir hálfleik, 53-42. En Adam var ekki lengi í sæluvistinni og Reynir svaraði með því að vinna þriðja hlutann með sama mun, 32-20, og tók forystuna í blálokin, 73-74 með flautukörfu. FSu hélt svo haus í lokahlutanum með 30 stigum gegn 20 og tryggði með því sigurinn.
 
Eins og fyrr var komið að var Guðmundur Auðunn bestur Reynismanna, meðan hans naut við, skoraði 23 stig úr undrafáum tilraunum og þurft hefði að spyrja að leikslokum ef hann hefði getað verið með til loka. Ragnar Ólafsson átti einnig skínandi leik, 18 stig og 6 fráköst, og Elvar Þór Sigurjónsson sömuleiðis, skoraði 13 stig. Reggie Dupree er snarborulegur leikmaður sem fellur vel inn í liðsheildina og hann skilaði ágætu dagsverki, 24 stigum og 8 fráköstum. Egill Birgisson skoraði 8, og þeir Ólafur Geir Jónsson og Alfreð Elíasson 4 stig.
 
FSu liðið olli undirrituðum nokkrum vonbrigðum í þessum leik. Töluvert virtist skorta á einbeitinguna og leikmenn á hælunum í varnarleiknum. Þó Reynisliðið sé skipað nokkrum ágætum leikmönnum er of mikil gestrisni að leyfa því að skora 94 stig í Iðu. Liðið náði þó að rífa sig upp þegar máli skipti og ljúka sínu dagsverki, og má kalla það framför að vinna þó spilamennskan sé ekki upp á mjög marga fiska.
 
Ari Gylfason var stigahæstur heimamanna með 27 stig og tók 5 fráköst og Matt Brunell nartaði í hæla hans með 26 stig en var að auki með 10 fráköst. Svavar Ingi Stefánsson var nokkuð lengi í gang en það kviknaði á honum í seinni hálfleik og það skilaði 18 stigum. Daði Berg skoraði líka 18 stig og gaf 6 stoðsendingar og Sigurður Orri skoraði 11. Hinn bráðungi og efnilegi Geir Elías Úlfur Helgason kom aðeins inn á og setti flottan þrist úr einu skottilraun sinni.
 
Af því nú er komið í tísku að kasta fram stökum læt ég þessa fylgja:
 
Heimaliðið komst á kreik,
kátur frá því greini,
svo að lokum, með seigluleik,
sigur vannst á Reyni.
 
 
Umfjöllun og höfundur stöku/ Gylfi Þorkelsson