Stjarnan tók í kvöld 1-0 forystu í einvígi sínu gegn Keflavík í 8-liða úrslitum Domino´s deildar karla. Lokatölur í Ásgarði voru 102-86 Stjörnuna í vil. Gestirnir úr Keflavík byrjuðu með látum og settu 30 stig á heimamenn strax í fyrsta leikhluta. Garðbæingar sem hafa verið á mikilli siglingu undanfarið svöruðu fyrir sig og voru við stýrið næstu þrjá leikhluta og lönduðu að endingu öruggum sigri.
 
Liðin mætast aftur á sunnudag kl. 19:15 í Toyota-höllinni í Reykjanesbæ. Þar dugir Stjörnunni sigur til að tryggja sér sæti í undanúrslitum en ef Keflavík vinnur þarf að blása til oddaleiks í Ásgarði fimmtudaginn 28. mars næstkomandi, Skírdag.
 
Keflvíkingar rifu í sig hvert sóknarfrákastið á fætur öðru í upphafi leiks og í stöðunni 6-15 tók Teitur Örlygsson leikhlé fyrir Stjörnuna sem voru nokkuð hikandi og kaldir í sínum aðgerðum í upphafi leiks. Michael Craion gerði snemma nokkuð sem ekki hefur sést hérlendis er hann varði vinstri handar húkkið hjá Justin Shouse og í reynd gerði hann það í tvígang í kvöld!
 
Keflvíkingar leiddu 21-30 að loknum fyrsta leikhluta en í öðrum hluta hófst nett þriggja stiga sýning. Garðbæingar komu betur út úr henni, Dagur Kár og Jovan skelltu niður körfum, þess á milli skar Frye sig í gegnum Keflavíkurvörnina og heimamenn fóru að gefa frákastabaráttunni betri gaum. Garðbæingar röðuðu niður 33 stigum í öðrum hluta þar sem Jovan kom hárbeittur af bekknum og staðan í hálfleik var 54-50 Garðbæinga í vil.
 
Eins og við var að búast hægðist aðeins um í stigaskorinu í síðari hálfleik, harkan færðist í aukana og bæði orð og nokkur högg fengu að fljúga. Gestirnir úr Keflavík sögðu farir sínar ekki sléttar af dómgæslunni í kvöld og það mátti alveg taka undir með þeim þegar þeir kröfðust þess að dæmd yrði óíþróttamannsleg villa á Jarryd Frye sem varð svo ekki að veruleika. Baptist kvaddi með fimm villur og sú fimmta var tæknivíti, slíkt hið sama átti við um Magnús Þór Gunnarsson. Í stuttu máli sagt þá misstu Keflvíkingar einbeitinguna í síðari hálfleik, fókusinn einfaldlega of mikill á dómgæsluna á meðan Garðbæingar léku sterkan liðsbolta.
 
Keflavík var aldrei langt undan Stjörnunni sem var þó ávallt við stýrið, lokatölurnar 102-86 gefa ekki nákvæma mynd af leiknum því hann var jafnari en svo. Jovan og Frye voru sterkir í Stjörnuliðinu í kvöld og Craion bestur í liði gestanna. Keflvíkingar gerðu heimamönnum verkið auðveldara fyrir með því að missa ,,kúlið” en nú bíður Garðbæinga ærinn starfi því sigrar eru ekki auðsóttir í Toyota-höllinni.
 
Jarrid Frye bakaði Keflvíkingum töluverð vandræði í kvöld, setti 25 stig, tók 13 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Framlagið af bekknum vó þungt en þaðan kom Jovan með 24 stig og 4 fráköst. Craion gerði 23 stig og tók 10 fráköst hjá Keflavík en það er löngu þekkt staðreynd að sá kappi reimar ekki skónna á sig fyrir minna en tvennu. Darrel Lewis bætti svo við 20 stigum, 8 fráköstum og 6 stoðsendingum, stórhættuleikur og lipur leikmaður og sjö þessara frákasta komu sóknarmegin!
 
 
Mynd/ tomasz@karfan.is