Það er óhætt að segja að mikil eftirvænting hafi ríkt í Ásgarði í Garðabæ í kvöld þegar heimamenn í Stjörnunni tóku á móti Keflvíkingum í oddaleik um sæti í undanúrslitum 2013. Kofinn var orðinn fullur tæpum klukkutíma fyrir leik og ljóst að stuðningsmenn liðanna ætluðu ekki að láta sitt eftir liggja. Þakið ætlaði svo af Ásgarði þegar liðin voru kynnt til leiks, og alveg ljóst að hér var allt undir.
 
Stjörnumenn hófu leikinn talsvert betur og komust í 15-11. Brian Mills tróð meðal annars oft í andlitið á Keflvíkingum. Þá vöknuðu gestirnir heldur betur úr roti og skoruðu næstu tólf stig leiksins. Magnús Þór Gunnarsson kveikti í gestunum með tveimur rosalegum þristum og Keflavík leiddi eftir fyrsta leikhluta 15-23.
 
Keflvíkingar héldu áfram að keyra á Stjörnumenn í öðrum leikhluta, en sókn heimamanna var svo gott sem lömuð, og var eins og Brian Mills væri eini Stjörnumaðurinn sem var mættur til leiks, en Mills skoraði 19 stig í fyrri hálfleik. Undir lok fyrri hálfleiks tókst Stjörnumönnum þó að saxa á forskot gestanna, en eftir lélega útfærslu á hraðaupphlaupi hjá Mills og Jarrid Frye tókst Keflvíkingum að halda muninum í sex stigum í hálfleik, 41-47, og spennan gjörsamlega í algleymi.
 
Gestirnir mættu mun betur stemmdir til leiks í síðari hálfleik og voru alltaf einu skrefi á undan. Allir leikmenn Keflavíkur virtust skila framlagi í hús á meðan Brian Mills og Marvin drógu vagninn fyrir Garðbæinga. Stjörnumönnum virtist ekki ætla að takast að saxa á forskot gestanna og höfðu Keflvíkingar þægilega 10 stiga forystu fyrir lokafjórðunginn, 52-62.
 
Það var þó ljóst að leiknum var engan veginn lokið. Stjörnumenn hófu lokafjórðunginn af þvílíkum krafti og komust fljótlega hættulega nálægt Keflvíkingum. Eftir tvö vítaskot frá umdeildasta manni einvígisins, Magnúsi Gunnarssyni, jafnaði Justin Shouse leikinn í stöðunni 68-68, og allt ætlaði að verða vitlaust í Ásgarði. Fram að þessu hafði justin ekki verið eins og hann á að sér að vera en þarna bætti hann heldur betur fyrir það. Fóru þá af stað einhverjar æsilegustu lokamínútur sem sést hafa í úrslitakeppninni. Stjörnumenn komust í 74-70, en þá tók við sjö stiga áhlaup gestanna sem komust í 74-77 með þristi frá Billy Baptist, og einungis tvær mínútur eftir af leiknum. Þá skoruðu Stjörnumenn fjögur stig í röð og staðan orðin 78-77. Eftir mislukkaða sókn gestanna ætlaði svo allt um koll að keyra þegar Brian Mills tróð yfir Baptist með þvílíkum tilþrifum að annað eins hefur ekki sést. Ótrúleg tilþrif og Stjarnan 80-77 yfir þegar 35 sekúndur voru eftir. Billy Baptist reyndi þá þriggja stiga skot sem geigaði og Stjörnumenn náðu boltanum. Magnús Þór fékk sína fimmtu villu við það að brjóta á Justin Shouse og Stjörnumenn áttu boltann með 8 sekúndur eftir á klukkunni. Justin setti tvö víti niður og staðan 82-77. Keflvíkingum tókst ekki að minnka muninn eftir þetta og því ljóst að það eru Stjörnumenn sem komast í undanúrslit Domino’s deildarinnar vorið 2013, þar sem þeir mæta Snæfelli.
 
Sigur Stjörnumanna var í raun ótrúlegur, enda voru Keflvíkingar í ansi vænlegri stöðu fyrir lokafjórðunginn. Justin Shouse, sem hafði varla sést í leiknum fyrir síðustu tvær mínúturnar var hins vegar svo sannarlega betri en enginn undir lokin þar sem hann tryggði Garðbæingum sæti í undanúrslitum tímabilsins 2012-2013. Rimma þessara liða var gjörsamlega mögnuð í ár, eins og rimma þeirra í fyrra. Ótrúleg stemming var í Ásgarði í kvöld, og voru stuðningsmenn Stjörnunnar eins og andsetnir eftir að sigurinn var í höfn.
 
Brian Mills var frábær í leiknum í kvöld, en Mills skoraði 32 stig, tók 7 fráköst og varði 3 skot. Jarrid Frye hafði hægt um sig framan af, en lauk þó leik með 21 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar. Hjá gestunum var Billy Baptist frábær, með 24 stig og 9 fráköst.
 
Ótrúleg rimma að baki, og það er vonandi að rimma Stjörnunnar gegn Snæfelli verði álíka spennandi. Svona á úrslitakeppnin að vera!
 
 
 
Umfjöllun/ EKG