Þór Þorlákshöfn og KR hafa einu sinni áður mæst í úrslitakeppni úrvalsdeildar karla en það var á síðustu leiktíð. Rimma þeirra sem hefst í kvöld kl. 19:15 í Icelandic Glacial Höllinni er því önnur rimma liðanna í úrslitakeppninni. Þórsarar eru nýjabrumið en KR-ingar rótgróna tréð sem vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil tímabilið 1964-1965.
 
Þór Þorlákshöfn hefur aldrei orðið Íslandsmeistari en þann stóra hefur KR unnið alls fimm sinnum eftir að úrslitakeppnin var sett á laggirnar árið 1984 og í heildina unnið titilinn 12 sinnum. Þór lauk keppni í 2. sæti deildarkeppninniar þetta árið en KR hafnaði í 7. sæti. Þór vann frækinn spennusigur á Skallagrím í lokaumferðinni en KR tapaði spennuslag gegn KFÍ í Jakanum á Ísafirði.
 
Í 8-liða úrslitum kemst það lið áfram sem fyrr vinnur tvo leiki. Á síðasta tímabili mættust liðin í undanúrslitum og höfðu Þórsarar 3-1 sigur í þeirri rimmu. Eins og gefur að skilja eru bæði lið umtalsvert breytt síðan þá.
 
Þór Þorlákshöfn verður án Darra Hilmarssonar og Baldurs Þórs Ragnarssonar vegna meiðsla. Mikið mun því mæða á Ben Curtis Smith, Guðmundi Jónssyni, Darrell Flake, Grétari Inga Erlendssyni og David Jackson. Einnig verður fróðlegt að sjá hvernig Emil Karel Einarsson og Þorsteinn Ragnarsson munu svara fjarveru Darra og Baldurs en það skiptir sköpum fyrir Þór að fá þessa tvo ungu og öflugu leikmenn í réttan gír og ekki síðar en akkúrat í kvöld.
 
KR hópinn þarf vart að kynna til leiks, þarna gefur að líta landsliðsmennina Brynjar Þór Björnsson, Helga Magnússon og Finn Atla Magnússon. Að auki hafa þeir Martin Hermannsson og Kristófer Acox átt magnaða spretti með liðinu. Erlendu leikmennirnir Darshawn McClellan og Brandon Richardson hafa fengið nokkra gagnrýni fyrir sína frammistöðu sem hefur ekki alltaf þótt neitt rjómalöguð en hrökkvi þeir í gang og fari hlutirnir að smella hjá KR er vesturbæingum flestum vegir færir. KR liðið á mikið inni og hvort framkvæmd verði úttekt af þeim kjörbókarreikningi mun koma í ljós ekki síðar en í kvöld!
 
Fyrri viðureignir liðanna á tímabilinu:
 
Liðin mættust í Þorlákshöfn í nóvember þar sem Þór hafði 102-88 sigur í fyrri leiknum. Í síðari leiknum hafði KR sigur 88-83 í DHL Höllinni svo liðin tóku sinn hvorn heimaleikinn. Einvígið hefst í Icelandic Glacial Höllinni í Þorlákshöfn í kvöld en leikdagarnir eru eftirtaldir:
 
Viðureign 1:
Þór Þ.(2)-KR(7)
Leikur 1 Fimmtudagur 21 mars kl. 19.15 Þorlákshöfn
Leikur 2 Sunnudagur 24 mars kl. 19.15 DHL-höllin
Leikur 3 Fimmtudagur(skírdagur) 28 mars kl. 19.15 – ef þarf Þorlákshöfn
 
Tölur liðanna á tímabilinu, deildarkeppni:
 
Þór Þorlákshöfn:
 
Besta liðsskipan eftir +/- tölfræði
Ben Curtis Smith, Guðmundur Jónsson, Darrell Flake, Darri Hilmarsson og David Jackson
(Darri er eins og áður greinir ekki meira með Þór þetta tímabilið)
 
Tveggja stiga nýting í heimaleikjum: 48,5%
Þriggja stiga nýting í heimaleikjum: 33,1%
Vítanýting í heimaleikjum: 74%
 
Tveggja stiga nýting í útileikjum: 53,6%
Þriggja stiga nýting í útileikjum: 39,7%
Vítanýting í útileikjum: 72,8%
 
KR:
 
Besta liðsskipan eftir +/- tölfræði
Brynjar Þór Björnsson, Helgi Magnússon, Brandon Richardson, Kristófer Acox og Finnur Atli Magnússon
 
Tveggja stiga nýting í heimaleikjum: 53,3%
Þriggja stiga nýting í heimaleikjum: 31,5%
Vítanýting í heimaleikjum: 68,6%
 
Tveggja stiga nýting í útileikjum: 50,7%
Þriggja stiga nýting í útileikjum: 31,7%
Vítanýting í útileikjum: 72%