Stjarnan og Keflavík hafa einu sinni áður mæst í úrslitakeppni úrvalsdeildar karla en einvígi liðanna í 8-liða úrslitum Domino´s deildarinnar hefst í Ásgarði í kvöld. Leikurinn verður í beinni útsendingu hjá Stöð 2 Sport. Liðin mættust í úrslitakeppninni í fyrsta sinn á síðustu leiktíð og þá einmitt í átta liða úrslitum en síðustu tvö ár hefur Stjarnan hafnað í 4. sæti deildarinnar og Keflavík í því fimmta.
 
Keflvíkingar þekkja það að lyfta þeim stóra en það gera Garðbæingar ekki. Stjörnumenn eiga einn silfurpening úr Íslandsmótinu en Keflvíkingar hafa níu sinnum orðið Íslandsmeistarar eftir að úrslitakeppnin var sett á laggirnar árið 1984 og þá er það upptalið en Keflvíkingar unnu ekki titilinn á tímanum fyrir úrslitakeppni.
 
Stjarnan lokaði deildarkeppninni vel með sex sigrum í röð og Keflvíkingar höfðu sömuleiðis sigur í lokaumferðinni og áttu m.a. rispu á tímabilinu sem taldi sjö sigurleiki. Stjörnumenn hafa þó fengið kastljósið á sig upp á síðkastið enda vart stigið feilspor síðan þeir urðu bikarmeistarar í Laugardalshöll.
 
Sem fyrr þá þarf að vinna tvo leiki í þessari seríu til að tryggja sér sæti í undanúrslitum og slagur liðanna í fyrra fór einmitt í oddaleik og eflaust margir sem óska sér þess einmitt nú og hafa sumir orðið til þess að benda á að réttast væri að setja ný lög fyrir þessa rimmu og skikka hana í að vinna þurfi helst 3 leiki til að komast áfram! En að öllu gamni slepptu þá er ráðlagt að mæta snemma í Ásgarð í kvöld og koma sér vel fyrir enda verða pallarnir þétt setnir!
 
Stjörnumenn hafa verið með Marvin Valdimarsson í meiðslum, hann mætti í búning í síðasta deildarleikinn en lék ekki. Það mun skipta Garðbæinga nokkru máli hvernig þessi öflugi leikmaður muni geta beitt sér í úrlsitakeppninni. Justin Shouse hefur verið að leika vel upp á síðkastið og verið stígandi í leik Jovans Zdravevski. Brian Mills og Jarrid Frye verða einnig illir viðureignar og áður en þú kemst endanlega upp að körfunni þarftu að komast framhjá Fannari Frey Helgasyni. Dagur Kár Jónsson hefur líka verið að færa sig upp á skaftið sem og Sæmundur Valdimarsson. Nú ef upptaldir koma honum ekki í netið þá lúrir Kjartan Atli á kantinum tilbúinn að refsa. Djúpt á því hjá Stjörnunni og þar á bæ ætla menn sér mikið.
 
Í Keflavík finnum við eitt af sterkari byrjunarliðum landsins og breiddin mátti alveg við því að fá Arnar Frey Jónsson inn í hópinn. Michael Craion mun gera Garðbæingum lífið leitt og þá hefur verið virkilega gaman að sjá þá varnarvinnu sem Darrel Lewis hefur verið að skila. Keflvíkingar þurfa meiri stöðugleika í framlagið hjá Billy Baptist og þá mega þeir Magnús Þór og Valur Orri ekki láta slökkva í sér heldur berjast fyrir því að vera virkir í öllum leikjum allan þann tíma sem þeir verma parketið. Ef Ragnar Gerald Albertsson og Almar Guðbrandsson koma einbeittir til leiks verður mikil hjálp í því fyrir Keflavíkurliðið og mikilvæg reynsla í boði fyrir þessa ungu en öflugu leikmenn.
 
Fyrri viðureignir liðanna á tímabilinu:
Liðin mættust fyrst í Ásgarði í október þar sem heimamenn fóru með öruggan 101-83 sigur af hólmi en þetta tímabilið tapaði Keflavík þremur fyrstu deildarleikjum sínum í mótinu og hafði það aldrei áður gerst í sögu þeirra. Í annarri viðureign liðanna í janúar höfðu Keflvíkingar sigur 107-103 þar sem Craion gerði 29 stig og tók 17 fráköst og setti framlagsmetið þetta tímabilið með 50 punkta!
 
Viðureign 2:
Stjarnan(4)-Keflavík(5)
Leikur 1 Fimmtudagur 21 mars kl. 19.15 Beint á stöð 2 Sport Ásgarður
Leikur 2 Sunnudagur 24 mars kl. 19.15 Toyota-höllin
Leikur 3 Fimmtudagur(skírdagur) 28 mars kl. 19.15 – ef þarf Ásgarður
 
Tölur liðanna á tímabilinu, deildarkeppni
 
Stjarnan:
 
Besta liðsskipan eftir +/- tölfræði
Justin Shouse, Dagur Kár Jónsson, Jarrid Frye, Jovan Zdravevski og Brian Mills
 
Tveggja stiga nýting á heimavelli: 51,8%
Þriggja stiga nýting á heimavelli: 37,2%
Vítanýting á heimavelli 78,3%
 
Tveggja stiga nýting á útivelli: 55,4%
Þriggja stiga nýting á útivelli: 37%
Vítanýting á útivelli: 79%
 
Keflavík:
 
Besta liðsskipan eftir +/- tölfræði
Valur Orri Valsson, Darrel Lewis, Billy Baptist, Snorri Hrafnkelsson og Michael Craion
 
Tveggja stiga nýting á heimavelli: 51,2%
Þriggja stiga nýting á heimavelli: 24,3%
Vítanýting á heimavelli: 76,5%
 
Tveggja stiga nýting á útivelli: 51,8%
Þriggja stiga nýting á útivelli: 31,4%
Vítanýting á útivelli: 69,9%