Snæfell og Njarðvík mætast nú öðru sinni í 8-liða úrslitum en alls hafa liðin tivsvar sinnum áður mæst í úrslitakeppninni. Liðin leika sinn fyrsta leik í kvöld kl. 20:00 í Stykkishólmi. Árið 2004 mættust næfell og Njarðvík í undanúrslitum og Snæfell sópaði Njarðvík út í sumarið, slíkt hið sama gerði Njarðvík við Snæfell og þá í 8-liða úrslitum árið 1999. Snæfell hefur heimaleikjaréttinn í seríunni, luku keppni í 3. sæti deildarinnar en Njarðvíkingar í því sjötta.
 
Það er ólíku saman að jafna þegar titlar félaganna eru bornir saman, Njarðvíkingar eru það félags sem oftast hefur orðið Íslandsmeistari eftir að úrslitakeppnin var tekin upp eða alls 11 sinnum. Snæfell hefur einu sinni unnið titilinn en það var árið 2010. Síðasti titill Njarðvíking kom í hús árið 2006 en þeir hafa alls unnið Íslandsmeistaratitilinn þrettán sinnum.
 
Hér má gera ráð fyrir hörku rimmu og eflaust fjöldamargir sem spá oddaleik í seríunni. Snæfell vann 16 deildarleiki og tapaði 6 en Njarðvíkingar unnu 12 og töpuðu 10. Njarðvíkingar hertu róðurinn allverulega eftir áramót en Hólmarar hafa verið í og við toppinn nánast allt tímabilið og voru á tíma í bullandi baráttu um deildarmeistaratitilinn.
 
Snæfell er bæði með breiðan og reyndan hóp þetta tímabilið. Ryan Amoroso er mættur aftur í Hólminn og það í skruggu formi. Jay Threatt er sennilega einn sá fljótasti í deildinni á 100 metrunum. Kanónur hoknar af reynslu á borð við Nonna Mæju, Pálma Frey, Hafþór Inga, Sigga Þorvalds, Svein Arnar og Óla Torfa munu hafa mikið að segja í liði Snæfells. U18 ára landsliðsmiðherjinn Stefán Karel Torfason verður einnig að stíga upp og nýta allar sínar mínútur til hins ítrasta. Djúpur og sterkur hópur hjá Hólmurum.
 
Njarðvíkingar munu sem fyrr líta mikið til Elvars Friðrikssonar sem skipað hefur sér á sess með sterkustu leikmönnum deildarinnar. Ásamt honum mun nokkur hiti og þungi falla á Bandaríkjamennina Nigel Moore og Marcus Van. Í liði Njarðvíkinga er þörf á að Ólafur Helgi og Ágúst Orrason verið með allra besta móti og þeir Hjörtur Hrafn og jaxlinn Friðrik Erlendur Stefánsson þétti múrana við körfuna ásamt Marcus Van. Maciej Baginski, Oddur Birnir og Óli Ragnar þurfa allir einnig að vera með besta móti ef Njarðvíkingar ætla sér upp úr þessu einvígi. Sterkur en tiltölulega óreyndur hópur Njarðvíkinga á þessu sviði þó vissulega hafi flestir leikmenn liðsins átt gífurlega farsæla ferla að baki í yngri flokkum og flestir þeirra jafnvel enn yfirstandandi.
 
Fyrri viðureignir liðanna á tímabilinu:
Njarðvík og Snæfell mættust fyrst þetta tímabilið í Ljónagryfjunni þar sem Hólmarar höfðu 70-104 stórsigur gegn grænum. Aftur áttust þau svo við í Stykkishólmi í lokaumferðinni og þar marði Snæfell 83-79 heimasigur. Hólmarar unnu því báðar deildarviðureignirnar. Bæði lið féllu út í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins á síðustu leiktíð og því mæta hér tvö ansi hungruð lið sem ætla sér inn í undanúrslitin, vísir að magnaðri rimmu.
 
Viðureign 4:
Snæfell(3)-Njarðvík(6)
Leikur 1 Föstudagur 22 mars kl. 19.15 Stykkishólmur
Leikur 2 Mánudagur 25 mars kl. 19.15 Beint á stöð 2 Sport Njarðvík
Leikur 3 Fimmtudagur(skírdagur) 28 mars kl. 19.15 – ef þarf Stykkishólmur
 
Tölur liðanna á tímabilinu, deildarkeppni
 
Snæfell:
 
Besta liðsskipan eftir +/- tölfræði
Jay Threatt, Pálmi F. Sigurgeirsson, Sigurður Þorvaldsson, Jón Ólafur Jónsson og Ryan Amoroso.
 
Tveggja stiga nýting á heima- og útivelli: 54% – 54,6%
Þriggja stiga nýting á heima- og útivelli: 40,2% – 36,5%
Vítanýting á heima- og útivelli: 72,1% – 76,4%
 
Njarðvík:
 
Besta liðsskipan eftir +/- tölfræði
Elvar Friðriksson, Maciej Baginski, Ólafur Helgi Jónsson, Nigel Moore og Marcus Van
 
Tveggja stiga nýting á heima- og útivelli: 49,9% – 47,4%
Þriggja stiga nýting á heima- og útivelli: 34,5% – 32,1%
Vítanýting á heima- og útivelli: 72,8% – 66,4%